Erlent

CIA: Rússar skárust í leikinn til að koma Trump í forsetastól

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bandaríska leyniþjónustan, CIA, hefur komist að þeirri niðurstöðu í leynilegu minnisblaði að rússnesk stjórnvöld hafi skipst sér af forsetakosningunum í Bandaríkjunum til að hjálpa Donald Trump að sigra í kosningunum en ekki aðeins til að draga úr tiltrú á bandaríska kosningakerfinu.

Bandaríska dagblaðið Washington Post greinir frá þessu á vefsíðu sinni seint í gærkvöldi og prentaðri útgáfu blaðsins í dag. Bandaríska leyniþjónustan hefur borið kennsl á einstaklinga með tengsl við ríkisstjórn Rússlands sem létu uppljóstrarasíðunni Wikileaks í té þúsundir tölvupósta frá landstjórn Demókrataflokksins, kosningastjóra Hillary Clinton og öðrum sem rússneskir tölvuhakkarar komist yfir að því er fram kemur í umfjöllun Washington Post.

Heimildarmenn blaðsins fullyrða að þessir einstaklingar hafi unnið að stærri aðgerðaáætlun sem hafði það að markmiði að hjálpa Trump og skaða Hillary Clinton í kosningabaráttunni. Minnisblaðið sem var unnið fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings hefur ekki verið gert opinbert.

Umbreytingateymi Donald Trump sem á að tryggja farsæla innreið hans í Hvíta húsið hafnaði ásökunum bandarísku leyniþjónustunnar í stuttri yfirlýsingu í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×