Erlent

Trump biður Ísraela að þrauka til 20. janúar

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/AFP
Donald Trump hefur hvatt Ísraela til að vera sterka og þrauka þar til að hann tekur við embætti forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar næstkomandi.

Trump segir á Twitter-síðu sinni að Ísraelum hafi verið sýnt virðingarleysi og landið smánað og að þessu verði að ljúka.

Trump vísar þar í ákvörðun Bandaríkjastjórnar síðastliðinn föstudag að beita ekki neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna gegn ályktun sem sneri að uppbyggingu landnemabyggða Ísraela.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur harðlega gagnrýnt Bandaríkjastjórn í kjölfar atkvæðagreiðslunnar í öryggisráðinu og hefur Ísraelsstjórn hótað því að stöðva greiðslur sínar til Sameinuðu þjóðanna.

Þá hefur Ísraelsstjórn haldið því fram að þau hafi gögn undir höndum sem sýna fram á að ríkisstjórn Barack Obama Bandaríkjaforseta hafi sjálf staðið að baki ályktuninni. Þessu hafnar talsmenn Bandaríkjastjórnar.

Búið að fresta atkvæðagreiðslu

Nefnd ísraelskra yfirvalda hefur frestað atkvæðagreiðslu varðandi hvort heimila beri byggingu nærri fimm hundruð nýrra íbúða á landnemabyggðum í austurhluta Jerúsalem.

Í frétt BBC segir að ákvörðunin um frestun atkvæðagreiðslunnar hafi verið tekin í kjölfar sérstakrar beiðni þess efnis frá forsætisráðherranum Benjamin Netanyahu.

Andstæðingar Trump hafa hvatt hann til að koma skilaboðum sínum þegar kemur að utanríkismálum á framfæri með hefðbundnari leiðum en Twitter.

Um hálf milljón Ísraela búa í um 140 landnemabyggðum Ísraelsstjórnar á hernumdu svæðunum sem hafa verið í byggingu frá árinu 1967.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×