Erlent

Pútín sendi Trump jólakveðju

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Verðandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump greindi frá því í dag að hann hafi fengið sérstaka jóla- og nýárskveðju frá Vladímír Pútín, forseta Rússlands. Í yfirlýsingu sagðist Trump hafa verið afar ánægður með bréfið. CNN greinir frá.

Í bréfinu hvatti Pútín Trump til þess að gera sitt allra besta til þess að bæta tvíhliða samstarf ríkjanna tveggja. Sagði í bréfi Pútíns að það væri nauðsynlegt að líta á samstarf ríkjanna út frá hagnýtum sjónarmiðum svo hægt væri að efla það.

Í áðurnefndri yfirlýsingu frá Trump sagðist hann vera afar hrifinn af bréfinu og að hann teldi að hugsunarháttur Pútíns „væri algjörlega réttur.“ Hann vonaðist til þess að ríkin tvö gætu orðið við þessum óskum Rússlandsforseta.

Samband ríkjanna tveggja hefur verið afar stirt síðastliðin ár þar sem ríkin hafa haft ólíkar áherslur í málefnum Sýrlands. Þá hefur bandaríska leyniþjónustan talið raunverulegar líkur á að Rússar hafi haft áhrif á niðurstöður bandarísku forsetakosninganna.

Fréttirnar af bréfi Pútín til Trumps koma einungis degi eftir að báðir sögðu mikilvægt að ríkin myndu fjölga kjarnaoddum í eigu sinni.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×