Erlent

Pútín segir bandarískum demókrötum að líta sér nær

Atli Ísleifsson skrifar
Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir að bandarískir Demókratar ættu að líta sér nær til að skýra sigur Donald Trump í bandarísku forsetakosningunum í nóvember.

Pútín var spurður út í fréttir þess efnis að rússneskir tölvuþrjótar hafi haft áhrif á úrslit kosninganna á fréttamannafundi í morgun.

Pútín sagði ásakanirnar einungis vera tilraun Demókrata til að koma sökinni yfir á einhvern annan og neitaði að rússnesk stjórnvöld hafi haft nokkur afskipti af kosningunum.

„Berum við ábyrgð á öllu? Erum við blórabögglar? Þetta sýnir bara að sitjandi stjórn á í miklum vandræðum og er í litlum tengslum við grasrótina,“ sagði forsetinn.

Í morgun fór fram árlegur fréttamannafundur Pútín þar sem hann bauð alls um 1.400 fréttamönnum til fundar - rússneskum sem erlendum.

Ýmislegt bar á góma á fundinum. Þannig sagðist hann enn ekki hafa tekið ákvörðun um hvort hann komi aftur til með að bjóða sig fram til forseta árið 2018.

Þá var stríðið til Sýrlandi einnig til umræðu þar sem hann sagði Rússa hafa gegnt lykilhlutverki að binda enda á átökin í Aleppo. Sagði hann samstarf Rússlands, Tyrklands, Sýrlands og Írans hafa reynst mjög árangsríkt og að næsta mál á dagskrá væri að koma á vopnahléi í Sýrlandi.

Fréttamannafundurinn átti upphaflega að fara fram í gær en var frestað vegna útfarar Andrei Karlov, sendiherra Rússlands í Tyrklandi, sem myrtur var í Ankara á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×