Enski boltinn

Verður Gylfi einn af þeim hundrað bestu í heimi?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar með þeim Kolbeini Sigþórssyni og Birki Bjarnasyni.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar með þeim Kolbeini Sigþórssyni og Birki Bjarnasyni. Vísir/EPA
Guardian fékk 124 knattspyrnuspekinga frá 45 þjóðum til að velja bestu knattspyrnumenn heims og notaði niðurstöðurnar til að búa til lista yfir hundrað bestu knattspyrnumenn heims.

Guardian ætlar að birta þennan hundrað manna lista á föstudaginn kemur og kannski er listinn í ár áhugaverðari en oft áður fyrir íslenska knattspyrnuáhugamenn.

Guardian útbjó samskonar lista í fyrra (sem má sjá hér) en þá komst enginn íslenskur knattspyrnumaðurinn inn á topp 100 listann.

Eftir fjórtán mörk í ensku úrvalsdeildinni á almanaksárinu og frábæra frammistöðu með íslenska landsliðinu á sögulegu ári þá gæti Gylfi Þór Sigurðsson vel verið í þessum hópi.

Gylfi Þór Sigurðsson hefur haldið uppi leik Swansea City á þessu ári og ef hann hefði ekki komið til bjargar á síðustu leiktíð þá væri liðið eflaust að spila í b-deildinni í dag.

Það eru örugglega flestir lesendur Guardian að velta því fyrir sér hvort Cristiano Ronaldo eða Lionel Messi taki efsta sætið á listanum eða hversu fáir breskir leikmenn komast í hóp þeirra bestu.

Það er hægt að lesa smá vangaveltur blaðamanna Guardian með því að smella hér. Þeir nefna reyndar Ísland bara í tengslum við furðuleg ummæli Cristiano Ronaldo eftir jafnteflið á móti Íslandi á EM en það er allt í lagi.

Íslenskur fótbolti komst á heimskortið með frábærri frammistöðu íslenska landsliðsins á EM í Frakklandi í sumar og því er allt í lagi að vera svolítið bjartsýn fyrir hönd Gylfa.

Hvort hetjudáðir Gylfa með Swansea og íslenska landsliðinu séu nóg til að koma honum í hóp hundrað bestu knattspyrnumanna heims kemur í ljós þegar Guardian birtist listann í lok vikunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×