Fótbolti

Tólfan mætt til Zürich: Eiginlega súrrealískt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tólfan vakti verðskuldaða athygli á EM í Frakklandi. Benjamín er hér fremstur meðal jafningja, klæddur í hvítt.
Tólfan vakti verðskuldaða athygli á EM í Frakklandi. Benjamín er hér fremstur meðal jafningja, klæddur í hvítt. Fréttablaðið/Vilhelm
Stuðningsmenn íslenska landsliðsins geta í kvöld unnið til verðlauna sem stuðningsmenn ársins hjá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA.

Stuðningsmenn Íslands, með Tólfuna fremsta í flokki, eru tilnefndir ásamt tveimur öðrum hópum. Annars vegar stuðningsmönnum Liverpool og Dortmund sem sameinuðust í söng á You'll Never Walk Alone fyrir leik liðanna í Evrópukeppni UEFA í haust.

Hins vegar stuðningsmenn ADO Den Haag í Hollandi sem köstuðu tuskudýrum til stuðningsmanna Feyenoord en þar voru börn af barnaspítala í Rotterdam sem voru gestir síðarnefnda félagsins á leiknum.

Víkingaklappið sem var einkennandi fyrir stuðningsmenn Íslands á EM í sumar er löngu orðið heimsfrægt og var tekið upp af stuðningsmönnum annarra liða á mótinu.

Styrmir Gíslason og Benjamín Árni Hallbjörnsson eru í Zürich fyrir hönd Tólfunnar og stuðningsmanna Íslands og segja þeir í samtali við mbl.is að það hafi farið afar vel um þá ytra.

„Þetta er eiginlega bara súrrealískt. Hérna eru Puyol, Maradona, Batistuta og ég gæti talið endalaust upp. Við erum á hótelinu með þeim og við borðuðum saman og drukkum hvítvín í gærkvöldi. Þetta er ekki alveg það sem manni datt í hug þegar Tólfan var stofnuð árið 2007, að við myndum enda hérna,“ sagði Styrmir meðal annars í samtali við mbl.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×