Erlent

Obama varar Trump við því að stjórna Hvíta húsinu eins og fjölskyldufyrirtæki

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump og Barack Obama.
Donald Trump og Barack Obama. Vísir/Getty
Barack Obama Bandaríkjaforseti segist hafa varað arftaka sinn í starfi við að stjórna Hvíta húsinu líkt og fjölskyldufyrirtæki. Hann segir að Donald Trump verði að virða bandarískar stofnanir.

„Eftir að maður hefur tekið við er maður að stýra stærstu stofnun heims,“ sagði Obama í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina ABC. Athygli vakti að börn Trump voru áberandi í kosningabaráttunni og tóku virkan þátt í henni. Óvíst er hvort að þau muni verða nánir samstarfsmenn föður síns meðan hann gegnir embætti eða hvort þau muni einbeita sér að því að sjá um rekstur viðskiptaveldis Trump.

Obama sagði einnig að Trump yrði að vara sig á því að það væri stór munur á því að stjórna og að vera í kosningabaráttu. Leiðtogar heims og markaðirnir myndu hlusta á hvert einasta orð sem hann myndi segja og haga sér eftir því.

Trump tekur við embætti 20. janúar næstkomandi og hefur staðið í ströngu frá því að hann bar sigur úr bítum í forsetakosningunum í nóvember á síðasta ári.

Hefur hann átt í orðaskaki við leyniþjónustustofnanir Bandaríkjanna sem telja sig hafa sannanir fyrir því að Rússar hafi reynt að hafa bein áhrif á úrslit forsetakosninganna með tölvuárásum.

Obama segist hafa minnt Trump á mikilvægi þess að bera traust til þessara stofnana og að það væri ómögulegt að taka góðar ákvarðanir ef slíkt traust væri ekki til staðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×