Erlent

Tilvonandi yfirmaður njósnamála Bandaríkjanna var settur á svartan lista Rússa

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dan Coats.
Dan Coats. Vísir/AFP
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur tilnefnt fyrrverandi öldungardeildarþingmaninn og sendiherrann Dan Coats til að gegna embætti yfirmanns njósnamála Bandaríkjanna. Árið 2014 var hann og aðrir þingmenn settir á svartan lista Rússa og meinað að ferðast til Rússlands. AFP greinir frá.

Coats var öldungardeildarþingmaður á árunum 1989-1999 og aftur frá 2011 til ársins í ár en hann lét af störfum sem þingmaður í síðustu viku. Meðan hann var öldungardeildarþingmaður var hann nefndarmaður í njósnamáladeild þingsins og var þar harður andstæðingur Rússa. Barðist hann sérstaklega fyrir refsiaðgerðum Bandaríkjanna og bandamanna gagnvart Rússum eftir innrás þeirra í Krímskaga.

Fyrir það var hann settur á sérstakan svartan lista Rússa, ásamt sex öðrum þingmönnum og þremur starfsmönnum Hvíta hússins. Var þeim meinað að ferðast til Rússlands. Coats hefur sagt að það sé heiður að hafa verið settur á þennan svarta lista og gerði hann á sínum tíma góðlátlegt grín að veru sinni á honum.

„Mér þykir leitt að ég geti ekki ferðast með fjölskyldu minni til Síberíu í sumar,“ sagði Coats í viðtali við Washington Post árið 2014.

Stjórnmálaskýrendur ytra virðast vera nokkuð hissa á tilnefningu Coats enda harður andstæðingur Rússa á alþjóðavettvangi. Trump og leyniþjónustur Bandaríkjanna hafa eldað saman grátt silfur að undanförnu vegna meintra afskipta rússneskra yfirvalda af forsetakosningunum í Bandaríkjunum þar sem Trump fór með sigur af hólmi. Bandaríska leyniþjónustan segist geta nafngreint rússneska einstaklinga sem hafi staðið á bak við innbrot í tölvukerfi Demókrata fyrir forsetakosningarnar í nóvember.

Verði tilnefning Coats staðfest af bandaríska þinginu mun hann gegna embætti yfirmanns njósnamála (Director of National Intelligence) en meginhlutverk embættisins er að samhæfa starf þeirra sextán stofnana Bandaríkjanna sem fara með njósnamál í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Segjast geta nafngreint rússnesku njósnarana

Yfirmenn bandarískra leyniþjónustustofnana uppfræða Donald Trump um tölvuinnbrot Rússa. Sjálfur segist Trump vera mikill aðdáandi leyniþjónustunnar. Joe Biden varaforseti segir að Trump verði að drífa sig í að fullorðnast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×