Fótbolti

„Spillingin bankar á dyrnar hjá íslenskum íþróttum“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þetta segir Arnar Már Björgvinsson, leikmaður Stjörnunnar í Pepsi-deild karla og laganemi við Háskólann í Reykjavík. Lokaverkefni hans um fjallar um hvernig lögum og reglum er háttað á Íslandi í tengslum við hagræðingu úrslita og hvort þær séu stakk búnar til að takast á við slík mál, ef að upp kæmist um að reynt hafi verið að hagræða úrslitum íþróttaviðburða hér á landi.

Arnar segir að íþróttasambönd á Íslandi séu langt á eftir nágrannalöndum sínum sem eru með mun ítarlegri og skýrari reglur um hvernig skuli taka á slíkum málum. Hagræðing leikja gæti átt við almenna refsilöggjöf en staða máli sé verri innan íþróttasambandanna.

„Þegar kemur að íþróttahreyfingunni sem ber höfuðábyrgð á að tækla spillingu innan íþróttarinnar þá er því verulega ábótavant, bæði innan ÍSÍ og KSÍ, hvernig málunum er háttað í regluverki samtakanna,“ segir Arnar.

Mikið hefur verið fjallað um veðmál í íþróttum síðustu daga. Nýbirt rannsókn sýnir mikla þátttöku knattspyrnumanna á Íslandi í peningaspilum og getraunaleikjum á erlendum veðmálasíðum. Þá er umfang veðmálafyrirtækjanna mikið og víða starfandi sérfræðingar um veðmál á íslenska knattspyrnuleiki auk þess sem fjölmargir útsendarar tölfræðiveita eru á svo gott sem öllum meistaraflokksleikjum hér á landi.

Ljóst er að hætturnar geta leynst víða en telur Arnar að íslenskum íþróttum standi ógn af þeim?

„Ég tel það, já. Maður tengir spillingu við Asíu og Austur-Evrópu en staðreyndin er sú að þetta er farið að banka verulega á dyrnar hjá okkur. Við höfum nú þegar nokkur dæmi þar sem að menn telja að hagræðing úrslita hafi átt sér stað á Íslandi. Ég tel að í öllum hinum Norðurlöndunum hafi menn eitthvað þurft að takast á við mál sem tengjast hagræðingu úrslita.“

Nánar verður rætt við Arnar í Fréttablaðinu á morgun.


Tengdar fréttir

Freistingin er mikil fyrir íslenska knattspyrnumenn

Knattspyrnumenn á Íslandi hafa í nokkrum mæli veðjað á úrslit eigin leikja. Engar sönnur hafa verið færðar á að úrslitum leikja hafi verið hagrætt hérlendis en freistingin til þess hjá íslensku knattspyrnufólki er mikil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×