Greint var frá því á blaðamannafundi á mánudag að lögreglan hefði ekki skráningarnúmer Kia Rio-bílsins, sem hún þurfti að finna, vegna lélegra gæða eftirlitsmyndavélanna. Þurfti lögreglan því að notast við útilokunaraðferð til að finna bílinn og sagði Grímur Grímsson, sem stýrir rannsókninni á hvarfi Birnu, að lögreglan hefði skoðað 126 bíla. Hefði lögreglan séð bílnúmerið strax hefði það þrengt leitina og sparað mikinn tíma.

„Ég nánast leyfi mér að fullyrða að það hafi ekki orðið nein breyting án þess að ég viti það fyrir víst. Fjárhagsstaðan hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er slík að það er útilokað að það sé búið að bæta við eða endurnýja þær vélar sem eru uppi.
Þetta eru vélar sem voru settar upp í samvinnu við Reykjavíkurborg árið 1997 og þetta voru og eru enn miklir hlunkar,“ segir hann.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra er að setja sig inn í starfið og átti erfitt með að tjá sig um hvort eftirlitsmyndavélar lögreglunnar yrðu endurnýjaðar og betrumbættar.
„En ef það eru einhverjar vélar sem eru ekki að virka verður það að sjálfsögðu skoðað. En það eru sjónarmið í þessu, bæði með og á móti, og það gilda strangar reglur um eftirlitsmyndavélar sem beinast út á götu,“ segir hún.
Snorri segist skilja persónuverndarsjónarmiðin en þau aftri rannsóknum lögreglunnar. „Búnaðurinn er orðinn þannig að það er varla hægt að nota hann. Þessar myndir sem hafa verið að birtast, það þarf að vera ansi fróður um bíla til að vita að þetta sé þessi ákveðna tegund, bara sem dæmi.“
