Erlent

Repúblikanar æfir vegna styttingar á dómi Chelsea Manning

Atli Ísleifsson skrifar
Samflokksmenn Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, eru margir æfir vegna ákvörðunar Barack Obama Bandaríkjaforseta að stytta fangelsisdóminn yfir fyrrverandi hermanninum Chelsea Manning.

Manning hefur verið í haldi lögreglu síðan 2010 og verður að óbreyttu sleppt þann 17. maí  næstkomandi. Manning var dæmd í 35 ára fangelsi fyrir að hafa lekið leynilegum gögnum bandarískra yfirvalda til Wikileaks.

Trump hefur sjálfur ekki tjáð sig um ákvörðun Obama að náða Manning og raunar 209 fanga til viðbótar, en samflokksmenn hans á Bandaríkjaþingi hafa ekki legið á skoðunum sínum.

Einn þeirra er öldungadeildarþingmaðurinn og fyrrverandi forsetaframbjóðandinn John McCain. „Þetta eru alvarleg mistök sem ég óttast að munu hvetja aðra til njósna og grefur undan heraga,“ segir McCain í yfirsýsingu.

Hann kveðst allt annað en ánægður með framferði Obama. „Þetta er leitt, en ef til vill viðeigandi lýsing á misheppnaðri öryggispólitík Obama forseta að hann vilji sleppa manneskju sem stofnaði lífi bandarískra hermanna, embættismanna og leyniþjónustumanna í hættu með því að leka hundruð þúsunda viðkvæmra gagna til Wikileaks, and-bandarískri stofnun sem var verkfæri Rússa í afskiptum þeirra af kosningunum,“ segir McCain.

Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, segir málið vera hneyksli. „Landráð Chelsea Manning stofnaði lífi Bandaríkjamanna í hættu með því að opinbera nokkur af viðkvæmustu leyndarmálum ríkisins.“

Segir Ryan að Obama skapi hættulegt fordæmi þegar manneskjur sem ógni þjóðaröryggi verði ekki látnar sæta ábyrgð vegna brota sinna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×