Lífið

Segir að Hollywood hafi lagt Trump í einelti

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Zoe Saldana telur að Donald Trump hafi farið með sigur af hólmi í forsetakosningunum vegna "hrekkjusvína.“
Zoe Saldana telur að Donald Trump hafi farið með sigur af hólmi í forsetakosningunum vegna "hrekkjusvína.“ Vísir/Getty
Leikkonan Zoe Saldana telur að Donald Trump hafi farið með sigur af hólmi í forsetakosningunum í nóvember síðastliðnum vegna „hrekkjusvína“ sem móðguðu hann í kosningabaráttunni.

„Við urðum kokhraust og hrokafull og við urðum hrekkjusvín“ sagði Saldana í viðtali við AFP.

Trump hefur margsinnis sjálfur verið sakaður um eineltistilburði í framkomu sinni, til að mynda þegar hann gerði grín að Serge Kovaleski, fötluðum fréttamanni.

„Við einblíndum á það sem hann geði vitlaust og það skapaði samkennd hjá stórum hluta fólks í Ameríku sem vorkenndi honum og vildi trúa á loforð hans.“

Í kosningabaráttunni var Trump margoft sakaður um kynþáttafordóma og þá sérstaklega fordóma gegn múslimum og innflytjendum frá Mexíkó. Saldana segist þó vona að ekki verði afturhvarf til tíma aðskilnaðarstefnu í Bandaríkjunum.

„Ég dreg lærdóm af sigri hans með mikilli auðmýkt,“ segir Saldana. „Ef við höldum áfram að vera sterk, mennta okkur og standa vörð um mannréttindi, þá munum við ekki sjá afturhvarf til þeirra tíma.“

Saldana er ekki ein á þessari skoðun en ástralska leikkonan Nicole Kidman sagði í vikunni að nú væri kominn tími á að Bandaríkjamenn stæðu með Trump.

„Nú er hann kosinn og við sem þjóð verðum að styðja þann sem er forseti vegna þess að það er það sem þetta land byggir á. Hvernig sem það gerðist þá er hann þarna og við þurfum að halda áfram,“ sagði Kidman í samtali við BBC í vikunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×