Innlent

Framsókn lofar harðri stjórnarandstöðu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
„Að sjálfsögðu verður hann harður, málefnalegur, skynsamur og mun leggja gott til en þegar við höldum að menn séu að fara inn á ranga leið munum við berjast gegn því,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fráfarandi forsætisráðherra, um hvernig Framsóknarflokkurinn muni vera í stjórandstöðu á þingi.

Sigurður Ingi ræddi stuttlega við fréttamenn áður en hann hélt inn á sinn síðasta ríkisráðsfund sem forsætisráðherra en ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tekur við í dag. Hann segir mikilvægt að ný ríkisstjórn horfi til landsins alls.

„Það eru 332 þúsund manns sem búa í þessu landi sem stunda ólíkar atvinnugreinar, þær eiga allar að vera jafnréttháar. Það er pláss fyrir alla og það er mikilvægt að horfa til hagsmuna allra hvar sem þeir búa og hvaða atvinnugrein sem þeir stunda,“ sagði Sigurður Ingi.

Gunnar Bragi Sveinsson, fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ræddi einnig stuttlega við fréttamenn áður en hann hélt inn á ríkisráðsfund. Hann hefur ekki mikla trú á nýrri ríkisstjórn.

„Það leggst ágætlega í mig að fara aftur í stjórnarandstöðu. ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar en ég hef ekki trú á að þau afreki mikið,“ sagði Gunnar Bragi og grínaðist með það að hann myndi verða „brjálaður“ í stjórnarandstöðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×