Erlent

Kveðjuræða Obama: „Lýðræðinu ógnað þegar því er tekið sem gefnum hlut“

atli ísleifsson skrifar
Hinn 55 ára Obama tók við forsetaembættinu árið 2008 en Donald Trump mun taka við því þann 20. janúar næstkomandi.
Hinn 55 ára Obama tók við forsetaembættinu árið 2008 en Donald Trump mun taka við því þann 20. janúar næstkomandi. Vísir/AFP
Barack Obama, fráfarandi Bandaríkjaforseti, hélt tilfinningaþrungna þakkarræðu í heimaborg sinni Chicago í gærkvöldi þar sem hann fór yfir síðustu átta ár sín í Hvíta húsinu.

Obama sagði meðal annars að samkvæmt langflestum mælikvörðum væru Bandaríkin betra og sterkara land en áður. Forsetinn varaði einnig við því að lýðræðinu væri ógnað um leið og fólk fari að taka því sem gefnum hlut.

Þúsundir gesta voru viðstaddir ræðuhöld forsetans sem hvatti Bandaríkjamenn, hvar sem þeir standa í þjóðfélaginu, að reyna að setja sig í spor annarra og bæta sig í því að veita öðrum sjónarmiðum athygli.

Gestir hrópuðu „fjögur ár til viðbótar“ þar sem Obama stóð í pontu. Forsetinn brosti og sagðist ekki geta orðið við því, en stjórnarskrá Bandaríkjanna kemur í veg fyrir að forseti geti setið lengur en tvö kjörtímabil.

Púað á Trump

„Nei, nei, nei, nei, nei,“ sagði forsetinn þegar gestir púuðu eftir að minnst var á að Trump tæki senn við embættinu. Sagði Obama að friðsamleg valdaskipti væri aðalsmerki bandarísks lýðræðis. 

Áfram hélt hann og sagði lýðræðinu stafa hætta af þremur hlutum – efnahagslegum ójöfnuði, aðgreining kynþátta og að ákveðnir hópar samfélagsins einangruðu sig þar sem skoðanir byggðust ekki á staðreyndum.„Ef þú ert orðinn þreyttur á að rífast við ókunnuga á netinu, reyndu þá að ræða við einhvern augliti til auglitis,“ sagði Obama við mikinn fögnuð viðstaddra, þar sem forsetinn var líklegast að vísa í eftirmann sinn sem þekktur er fyrir Twitter-notkun sína.

Hinn 55 ára Obama tók við forsetaembættinu árið 2008 en Donald Trump mun taka við því þann 20. janúar næstkomandi.

Sjá má ræðuna í heild sinni að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×