Fótbolti

Söguleg frumraun Alberts: Fjórði ættliðurinn sem spilar A-landsleik fyrir Ísland

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Albert Guðmundsson er kannski framtíð íslenska landsliðsins.
Albert Guðmundsson er kannski framtíð íslenska landsliðsins. vísir/getty
Albert Guðmundsson, 19 ára gamall leikmaður PSV Eindhoven í Hollandi, kom inn á sem varamaður á 90. mínútu þegar Ísland lagði Kína, 2-0, í Kínabikarnum í Nanning í dag.

Þetta var fyrsti A-landsleikur Alberts sem á að baki í heildina 23 leiki fyrir yngri landslið Íslands. Hann var einn fjögurra nýliða sem fengu sínar fyrstu mínútur með A-landsliðinu í dag.

Þessi fyrsti leikur Alberts er heldur betur sögulegur og þá sérstaklega fyrir fjölskyldu hans en óhætt er að segja að hann sé af miklum fótboltaættum. Hann varð í dag fjórði ættliðurinn í sinni fjölskyldu sem spilar A-landsleik fyrir íslenska landsliðið.

Albert er sonur Kristbjargar Helgu Ingadóttur og Guðmundar Benediktssonar sem bæði spiluðu A-landsleiki fyrir Ísland. Móðir hans spilaði fjóra leiki frá 1996-1997 en Guðmundur spilaði tíu leiki og skoraði tvö mörk frá 1994-2001.

Faðir Kristbjargar og afi Alberts er markavélin Ingi Björn Albertsson sem átti markametið í efstu deild áður en Tryggvi Guðmundsson hirti það af honum. Ingi Björn spilaði fimmtán A-landsleiki fyrir Ísland og skoraði tvö mörk á árunum 1971-1979.

Pabbi Inga Björns, afi Kristbjargar og langafi Alberts Guðmundssonar er alnafni hans, Albert Guðmundsson, fyrsti atvinnumaður Íslands í fótbolta. Sú mikla goðsögn spilaði sex landsleiki og skoraði tvö mörk á árunum 1946-1958.

Albert er fæddur árið 1997 en hann fór til Heerenveen í Hollandi árið 2013 en var keyptur til PSV Eindhoven sumarið 2015 þar sem hann spilar nú með varaliði félagsins.

Fjórir ættliðir í íslenska landsliðinu:

Fyrstur:

Albert Guðmundsson

6 A-landsleikir, 2 mörk frá 1946-1958

Annar:

Ingi Björn Albertsson

15 A-landsleikir, 2 mörk frá 1971-1979

Þriðju:

Kristbjörg Helga Ingadóttir

4 A-landsleikir, 0 mörk 1996

Guðmundur Benediktsson

10 A-landsleikir, 2 mörk frá 1994-2001

Fjórði:

Albert Guðmundsson

1 A-landsleikur 2017

vísir/getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×