Erlent

Vilja skoða skipun tengdasonar Trump sérstaklega

Samúel Karl Ólason skrifar
Jared Kushner og Stephen Bannon, sem einnig verður ráðgjafi Trump.
Jared Kushner og Stephen Bannon, sem einnig verður ráðgjafi Trump. Vísir/Getty
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur skipað tengdason sinn, Jared Kushner, sem sérstakan ráðgjafa sinn í Hvíta húsinu. Demókratar hafa kallað eftir því að skoðað verði sérstaklega hvort að skipunin samræmist lögum og siðferðisviðmiðum.

Kushner er giftur Ivönku Trump og spilaði stórt hlutverk í framboði Trump til forseta Bandaríkjanna. Lögmaður hans segir að Kusher muni hætta að stýra fasteignafélagi fjölskyldu sinnar og gefa út blaðið New York Observer vegna skipunarinnar.

Samkvæmt Reuters verður hlutverk Kushner að vinna að erlendum viðskiptum Bandaríkjanna og Miðausturlöndum. Fréttaveitan segir skipanir sem þessar, þar sem náskyldur aðili forseta er ráðinn til mikilvægra starfa í Hvíta húsinu vera sjaldgæfar.

Þá mun Ivanka Trump draga úr umsvifum sínum í fjölskyldufyrirtæki Trump og flytja til Washington DC. Hún mun þó ekki taka þátt í ríkisstjórn föður síns. Hún mun einnig stíga til hliðar frá eigin tískuvörumerkjum.

Jeff Sessions, sem Trump tilnefndi sem dómsmálaráðherra, fer fyrir þingið í dag sem þarf að samþykkja tilnefninguna. Þingið þarf ekki að tilnefna ráðningar ráðgjafa eins og Kushner.

Demókratar segja að skipun Kushner gæti verið brot á lögum og segjast þeir hafa spurningar um hvernig Kushner gæti mögulega komist hjá því að lenda í hagsmunaárekstrum á milli ríkisins annars vegar og viðskipta sinna hins vegar.


Tengdar fréttir

Væntanlegir ráðherrar spurðir spjörunum úr

Bandarískir þingmenn hefjast handa við að kanna hæfni ráðherraefna Donalds Trump. Dómsmálaráðherraefnið verður vísast spurt út í kynþáttafordóma og utanríkisráðherraefnið spurt út í náin tengsl sín við rússneska ráðamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×