Erlent

Theresa May hittir Trump í næstu viku: Er óhrædd við að bjóða honum byrginn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/AFP
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands mun hitta Donald Trump, forseta Bandaríkjanna næstkomandi föstudag. Hún segist vera óhrædd við að bjóða honum byrginn segi hann eða geri eitthvað sem henni finnst vera ótækt.

Þjóðarleiðtogarnir munu hittast í Hvíta húsinu á föstudaginn til að ræða viðskiptatengsl landanna tveggja sem og öryggismál. May er fyrsti erlendi þjóðarleiðtoginn til þess að sækja Trump heim síðan hann tók við embætti.

Í viðtali við BBC segir May að „sérstakt samband“ ríkjanna tveggja muni gera henni kleyft að ræða erfið mál við Trump. Hún hafi langan feril að baki þegar kemur að verndun réttinda kvenna.

Þúsundir hafa mótmælt Trump um allan heim á laugardag vegna orða sem Trump hefur látið út úr sér um konur sem og hegðun hans í garð þeirra.

Spurð hvort hún myndi vekja máls á ummælum Trump um konur og réttindabaráttu þeirra sagði May: „Ég hef nú þegar sagt að sum ummæli Trump sem hann hefur látið út úr sér um konur séu óásættanleg, en hann hefur nú þegar beðist afsökunar á nokkrum þeirra.“

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins hefur hvatt May til þess að gagnrýna Trump fyrir gömul ummæli sín um konur sem og ummæli hans um að banna ætti múslímum að ferðast til Bandaríkjanna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×