Erlent

Le Pen: "Þjóðernishyggja er stefna framtíðarinnar“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Marine Le Pen.
Marine Le Pen. Vísir/AFP
Marine Le Pen, leiðtogi Front National, stjórnmálaflokks yst á hægri væng stjórnmálanna í Frakklandi segir að þjóðernishyggja sé stefna framtíðarinnar. Hún telur að árið 2017 verði árið þar sem „Evrópubúar vakna.“ BBC greinir frá.

Ummælin lét Le Pen hafa eftir sér á samkomu þjóðernissinnaðra evrópskra stjórnmálaleiðtoga sem fram fer í borginni Koblenz í Þýskalandi þessa dagana.

Þangað voru mættir leiðtogar frá stjórnmálaflokkum í Þýskalandi, Austurríki, Ítalíu og Hollandi sem allir eiga sameiginlegt að vera tortryggnir í garð innflytjenda. Flokkarnir eru einnig andsnúnir Evrópusambandinu.

Á ráðstefnunni var til að mynda Geert Wilders, leiðtogi hollenska Frelsisflokksins sem tók undir með Le Pen og vísaði hann til kjörs Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna í ræðu sinni á samkomunni. „Í gær, ný Ameríka. Í dag....ný Evrópa!“

Á þessu ári fara fram þingkosningar í Frakklandi, Hollandi og Þýskalandi og eru leiðtogar þessara flokka vongóð um að þeim muni vegna vel í þeim kosningum.

„Þetta ár verður ár fólksins, ár frelsisins og ár þjóðernishyggjunnar“ sagði Le Pen sem sagði jafnframt að hún telji að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu muni hafa dómínó áhrif á önnur ríki Evrópusambandsins sem eitt af öðru munu yfirgefa sambandið.

„Við erum að verða vitni að endurkomu þjóðríkisins“ sagði Le Pen sem nýtti jafnframt tækifærið og gagnrýndi harðlega innflytjendastefnu Angelu Merkel, kanslara Þýskalands sem hún kallaði „stórslys.“

Hundruðir mótmælenda mótmæltu samkomunni í borginni á meðan fundarhöldum stóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×