Erlent

Konur um allan heim mótmæla Donald Trump

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá mótmælagöngu kvenna í Melbourne í dag.
Frá mótmælagöngu kvenna í Melbourne í dag. vísir/getty
Konur halda mótmælagöngur víða um heim í dag gegn Donald Trump, 45. forseta Bandaríkjanna. Búist er við því að yfir hálf milljón kvenna komi saman í Washington DC, höfuðborg Bandaríkjanna þar sem Trump sór embættiseið að bandarísku stjórnarskránni er hann tók við embætti í gær.

Þá er búið að skipuleggja sams konar mótmælagöngur í rúmlega 160 borgum í öllum heimsálfum en í umfjöllun Guardian um mótmælin segir að allt að 1,5 milljónir kvenna muni mótmæla Trump í dag.

Búið er að skipuleggja göngu í Reykjavík sem hefst klukkan 14 samkvæmt Facebook-síðu viðburðarins. Verður gengið frá Arnarhóli að Austurvelli.

Evvie Harmon, ein af þeim sem hefur skipulagt göngurnar, segir að konur um allan heim hafi setið á púðurtunnu um langt skeið og kjör Trump hafi verið það sem kveikti í þeirri tunnu.

Trump hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir kvenfyrirlitningu og að virða ekki mannréttindi jaðarhópa, til að mynda samkynhneigðra, en skömmu eftir að hann tók við embætti í gær var öll umfjöllun um málefni hinsegin fólks í Bandaríkjunum fjarlægð af síðu Hvíta hússins. Réttindi hinsegin fólks voru hins vegar eitt af lykilmálum forvera Trump í embætti, Barack Obama.

 

Búist er við því að kvennagangan í Washington verði stærsti viðburður sem tengja má við innsetningu nýs forseta í Bandaríkjunum. Mikil mótmæli voru í höfuðborginni í gær og voru um 200 manns handteknir í þeim.


Tengdar fréttir

Forsetinn setur Bandaríkin í fyrsta sæti

Donald John Trump varð 45. forseti Bandaríkjanna í gær. Í innsetningarræðu sinni hvatti hann til sameiningar undir bandaríska fánanum. Forsetinn sagði að Bandaríkin og bandaríska þjóðin ættu alltaf að vera í fyrsta sæti. Dagar innantó




Fleiri fréttir

Sjá meira


×