Stelpurnar okkar í íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta mæta gestgjöfum EM 2017, Hollandi, í vináttuleik 11. apríl. Þetta kemur fram á vef KSÍ.
Leikurinn fer fram á De Vijverberg vellinum í Doetinchem en það er einn leikstaða íslenska liðsins á Evrópumótinu í Hollandi. Þar mæta stelpurnar okkar liði Sviss 22. júlí.
Leikurinn er liður beggja liða í undirbúningi fyrir Evrópumótið þar sem Ísland verður á meðal þátttökuþjóða þriðja skiptið í röð. Þessi sömu lið mættust í riðlakeppninni á EM 2013 í Svíþjóð en þar vann Ísland, 1-0, og tryggði sér sæti í átta liða úrslitunum.
Ísland og Holland mættust síðast í apríl árið 2015 í vináttulandsleik í Kórnum en þá vann íslenska liðið, 2-1, með mörkum frá Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur og Söru Björk Gunnarsdóttur.
Þjóðirnar hafa átta sinnum mæst á fótboltavellinum og hafa stelpurnar okkar unnið sex þeirra leikja. Einum leik lauk með jafntefli og Holland hefur einu sinni borið sigurorð af íslenska kvennalandsliðinu.

