Enski boltinn

Knattspyrnumenn geta orðið fyrir sama heilaskaða og leikmenn í NFL

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það virðist geta haft alvarleg áhrif á heilann að skalla harðan bolta í mörg ár.
Það virðist geta haft alvarleg áhrif á heilann að skalla harðan bolta í mörg ár. vísir/getty
Í fyrsta sinn er búið að gera rannsókn á því hvort að knattspyrnumenn geti orðið fyrir heilaskaða af því að skalla boltann í áratugi.

Vísindamenn frá háskólunum í London og Cardiff skoðuðu heilann á fimm fyrrverandi atvinnumönnum og einum áhugamanni í knattspyrnu. Allir höfðu þeir spilað fótbolta að meðaltali í 26 ár.

Fjórir af þessum sex voru með heilaskaða sem kallað er CTE og er alþekkt hjá fyrrverandi leikmönnum í NFL-deildinni sem eru vanir því að fá þung högg í höfuðið. Hnefaleikakappar hafa einnig orðið fyrir sama heilaskaða.

Þeir sem fá CTE lenda í minnistapi, þunglyndi og persónuleiki þeirra breytist. Ekki er óalgengt að þeir sem fá CTE bindi endi á líf sitt.

Vísindamennirnir segja að enn sem komið er sé ekki hægt að fullyrða nákvæmlega um að bein tengsl séu á milli þess að skalla boltann mörg þúsund sinnum og CTE. Vísbendingarnar séu þó í þá áttina og því verði að rannsaka fleiri knattspyrnumenn.

Ættingjar hinna látnu sem hafa nú verið greindir með CTE eru æfir yfir því að enska knattspyrnusambandið og leikmannasamtökin hafi ekkert gert í þessum málum heldur hafi einfaldlega sópað vandamálinu undir teppið.

Enska knattspyrnusambandið segist aftur á móti styðja þessar rannsóknir og að þær verði áfram gerðar af hlutlausum aðilum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×