Íslenski boltinn

Hafa tapað tveimur af þremur úrslitaleikjum sínum á sjálfsmarki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Svekktir Fjölnismenn eftir leikinn í gær.
Svekktir Fjölnismenn eftir leikinn í gær. Vísir/Vilhelm
Fjölnismönnum ætlar að ganga illa að landa fyrsta titli sínum í meistaraflokki karla í knattspyrnu en liðið tapaði á móti Val í gærkvöldi í úrslitaleik Reykjavíkurmóts karla.

Þetta var fyrsti úrslitaleikur Fjölnismanna í Reykjavíkurmótinu en þriðji úrslitaleikur félagsins í bikarkeppni, deildabikar eða Reykjavíkurmóti.

Fjölnismenn höfðu áður tapað tvisvar í bikarúrslitaleik en þeir leikir fóru fram 2007 og 2008. Fjölnir tapaði 2-1 á móti FH í framlengdum bikarúrslitaleik 2007 þar sem Matthías Guðmundsson skoraði bæði mörk FH-liðsins þar af það síðara á 105. mínútu leiksins.

Síðustu tveimur úrslitaleikjum hefur Fjölnisliðið síðan tapað á sjálfsmarki. Fjölnir tapaði 1-0 á móti KR í bikarúrslitaleiknum 2008. Sigurmarkið kom á 89. mínútu þegar Kristján Hauksson varð fyrir því óláni að senda boltann í eigið mark eftir misheppnað skot frá Óskari Erni Haukssyni.

Sigurmark Valsmanna í gærkvöldi kom á 44. mínútu þegar Hans Viktor Guðmundsson stýrði boltanum í eigið mark eftir fyrirgjöf Arnars Sveins Geirssonar frá hægri.

Fjölnismenn hafa auk þess tapað tvisvar sinnum í úrslitaleik neðri hluta deildabikarsins, fyrst í vítakeppni á móti Breiðabliki 2004 og svo 2-0 á móti Leikni R. ári síðar. Þetta eru þó ekki formlegir úrslitaleikir um titil enda um keppni í neðri deildum að ræða.

Fjölnir hafði, fyrir úrslitaleikinn á móti Val í gærkvöld, unnið alla leiki sína í Reykjavíkurmótinu til þessa og það með markatölunni 11-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×