Íslenski boltinn

Þvertekur fyrir að skyndileg breyting ÍH á þingfulltrúa hafi með atkvæðaveiðar að gera

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frá þinginu í Vestmannaeyjum í dag.
Frá þinginu í Vestmannaeyjum í dag. Vísir/E. Stefán
Ásbjörn Sigþór Snorrason, formaður Íþróttafélags Hafnarfjarðar, staðfestir í samtali við Vísi að félagið hafi skipt um þingfulltrúa sinn á ársþingi KSÍ í gær.

Garðar Ingi Leifsson er samkvæmt vef KSÍ skráður þingfulltrúi ÍH á ársþinginu en eftir að hann var lagður af stað til Eyja fékk hann símtal þar sem honum var tilkynnt að hann fengi ekki að vera fulltrúi ÍH á þinginu.

Garðar Ingi vildi ekki tjá sig um málið við Vísi þegar eftir því var leitað. Ásbjörn Sigþór segir hins vegar að hann hafi skráð sig sem þingfulltrúi í leyfisleysi félagsins.

Kom skráningin ekki frá ykkur?

„Nei, hún kemur algjörlega frá honum. Hann skráir sig sem þingfulltrúi. Það var ekki með okkar leyfi,“ sagði Ásbjörn við spurningu Vísis.

„Ég get ekkert fullyrt um hvað Garðar Ingi hefði gert með sitt atkvæði. Ég hefði ekkert með haft með það að segja.“

Nýr þingfulltrúi ÍH er Guðrún Bjarnadóttir en hún er nátengd FH en eiginmaður hennar er Viðar Halldórsson, formaður félagsins.

„Guðrún kýs í okkar umboði þó svo að ég geti ekkert fullyrt um það hvernig hún kýs. Ég veit ekki hvernig þetta fer fram enda aldrei farið á ársþing.“

Ásbjörn Sigþór neitar því að þetta tengist formannskjöri sambandsins en nýr formaður verður kjörinn í dag.

„Við vorum ekki búin að útkljá okkar mál. Við vorum að halda aðalfund í vikunni og það lá á því að skrá okkar fulltrúa hjá ÍBH. Ég var efins um að ég gæti farið sjálfur og það kom í ljós að ég gat ekki farið frá vegna vinnu.“

„Þetta hefur ekkert með atkvæðaveiðar að gera. Þetta snýst um að við erum nátengd FH enda á ÍH hvorki völl né æfingaaðstöðu. Það er ástæðan fyrir þessum samskiptum, félögin eru nátengd.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×