Íslenski boltinn

Þórir styður Björn: Engin sérstök sýn komin fram hjá Guðna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir Hákonarson, sem gegndi stöðu framkvæmdarstjóra KSÍ í átta ár, ætlar að kjósa Björn Einarsson í formannskjörinu á ársþingi KSÍ í Vestmannaeyjum á morgun. Þetta sagðí hann í samtali við íþróttadeild í dag.

„Björn Einarsson kom fram með mjög skýra sýn um hvað hann vilji gera,“ segir Þórir en viðtalið allt við hann má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Þórir var framkvæmdastjóri KSÍ frá 2007 til 2015. Hann var ráðinn til sambandsins eftir að Geir Þorsteinsson var kjörinn formaður en hann hafði áður verið framkvæmdarstjóri í tíð Eggerts Magnússonar.

Þórir þekkir því vel til málefna knattspyrnunnar og rekstur KSÍ. Hann segir að það sé engin leið að ætla að stíga inn í sambandið og halda áfram að reka það eins og Geir hefur gert síðustu ár.

Enginn sest í stólinn hans Geirs

„Það er enginn sem getur labbað inn, sest í stólinn hans Geirs og sinnt þessu með sama hætti og hann gerði. Geir hefur það mikla þekkingu að það er enginn sem getur gert það,“ segir Þórir.

„Þess vegna finnst mér að menn ættu að koma fram með einhver sérstök áhersluatriði. Það hefur Guðni ekki gert.“

Þórir segir að í viðtölum við þá Björn og Guðna, sem og í umfjöllun fjölmiðla um formannskjörið, hafi formannsefnin ekki náð að koma málefnum sínum nægilega vel á framfæri.

Rekstur KSÍ þarf að vera í jafnvægi

Hann segir að Björn hafi stigið fram með mjög skýra sýn á hvað hann vilji gera. „Það er framkvæmanlegt en auðvitað munu þær breytingar sem hann hefur talað um taka tíma,“ segir Þórir.

„En mér finnst Guðni ekki hafa komið fram með sérstaka sýn á það hvaða málefni það eru sem hann stendur fyrir. Bara því miður, ég hef ekki komið auga á það hvaða sýn hann hefur návæmlega á hvernig sambandið á að þróast.“

„Sjálfur hef ég tekið afstöðu. Forsenda þess að halda áfram með öll þau góðu verkefni sem hreyfingin er með, bæði í landsliðum og í stuðningi við félagslið, er að rekstur KSÍ sé í góðum höndum og það sé jafnvægi í honum. Það á að skila afgangi á hverju ári til að dreifa til félaganna. Ég treysti Birni Einarssyni fullkomlega til þess og ég mun kjósa hann.“


Tengdar fréttir

Ársþing KSÍ: Margir enn óákveðnir

Björn Einarsson hefur naumt forskot á Guðna Bergsson í baráttunni um formannsstólinn hjá KSÍ samkvæmt könnun fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×