Myndform var fyrst stóru íslensku kvikmyndafyrirtækjanna þrigga til að hefja viðræður við Netflix í ágúst 2014. Bandaríska fyrirtækið hafði þá boðað komu sína hingað til lands og opnaði efnisveitu sína hér í janúar í fyrra.
Viðræðurnar við Myndform höfðu þá siglt í strand og sagði Gunnar í samtali við DV að fyrirtækið ætti að öllum líkindum eftir að eiga í viðskiptum við Netflix á einhverjum tímapunkti.

Aftur á móti hefur fyrirtækið ekki alltaf samið um sýningarétt fyrir sjónvarp heldur einungis kvikmyndahúsarétt. Úrvalið sem Netflix býður viðskiptavinum sínum er háð samningum við myndréttarhafa í hverju landi fyrir sig eða erlend framleiðslufyrirtæki.
Samkvæmt upplýsingum Vísis hefur Sam-félagið, sem á og rekur Sambíóin og Samfilm, selt Netflix talsvert af efni. Jón Diðrik Jónsson, eigandi og framkvæmdastjóri Senu, segir núgildandi samning fyrirtækisins við Netflix fara að renna út.
„Við gerðum nokkurra ára samning við þá á sínum tíma sem er enn í gangi. Sá samningur fer að klárast og við höfum rætt við þá hvað taki við. Þetta er búið að vera fínt og við munum nú skoða framhaldið," segir Jón Diðrik.