Íslenski boltinn

Karlar mega ekki mæta á dómaranámskeið KSÍ annað kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bríet Bragadóttir, Rúna Kristín Stefánsdóttir, Jovana Cosic og Birna H Bergstað Þórmundsdóttir sáu um dómgæsluna á U23 landsleik Íslands og Póllands árið 2015.
Bríet Bragadóttir, Rúna Kristín Stefánsdóttir, Jovana Cosic og Birna H Bergstað Þórmundsdóttir sáu um dómgæsluna á U23 landsleik Íslands og Póllands árið 2015. Mynd/KSÍ
Knattspyrnusamband Íslands vill fjölga konum í dómarahópnum sínum og hefur þess vegna skipulagt sérstak dómaranámskeið fyrir konur.

Dómaranámskeiðið, sem verður bara fyrir konur, verður haldið annað kvöld, þriðjudaginn 21. febrúar, í höfuðstöðvum KSÍ og hefst kl. 18:00. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands.

Karlarnir eru í miklum meirihluta innan dómarahópsins en það verða engir karla leyfðir í kvöld.

Markmiðið með námskeiðinu er að reyna að auka hlut kvenna í dómgæslu en mikill áhugi er innan vébanda KSÍ að fá fleiri konur til starfa á þeim vettvangi.

Námskeiðið mun standa yfir í tvo tíma. Bríet Bragadóttir og Rúna Kristín Stefánsdóttir sem hafa starfað sem KSÍ dómarar til margra ára munu segja frá reynslu sinni af dómarastörfum. Að loknu erindi þeirra verður fyrirlestur um aðstoðardómgæslu.

Bríet Bragadóttir dæmdi 13 leiki í Pepsi-deild kvenna á síðasta tímabili en fleiri en nokkur annar dómari. Hún var kosin besti dómari deildarinnar sumarið 2014.

Áhugasamar konur geta skráð sig með því að senda póst á magnus@ksi.is. Karlarnir verða aftur á móti að bíða eftir næsta dómaranámskeiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×