Erlent

Vill sjá sönnunargögn um meinta hlerun Obama á símum Trump

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump sakar Barack Obama um að hafa fyrirskipað hleranir á símum í Trump turninum.
Donald Trump sakar Barack Obama um að hafa fyrirskipað hleranir á símum í Trump turninum. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur eindregið verið hvattur til þess að leggja fram sönnunargögn sem sýni fram á að Barack Obama, forveri hans í starfi, hafi fyrirskipað hleranir á símum hins núverandi forseta. BBC greinir frá.

Trump setti fram ásakanir á Twitter-síðu sinni í gær þess efnis að Obama hefði fyrirskipað að símar Trump í Trump Tower hafi verið hleraðir á meðan kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á síðasta ári stóð sem hæst. Trump Tower var miðstöð kosningabaráttu Trump.

Talsmaður Obama hefur alfarið hafnað því að slíkt hafi átt sér stað. Trump hefur ekki lagt fram nein gögn sem styðja mál sitt og vill samflokksmaður forsetans, öldungardeildarþingmaðurinn Ben Sasse, að Trump leggi fram slík gögn.

Sasse segir að ásakanir Trump séu alvarlegar og að hann þurfi að skýra betur frá hinni meintu hlerun og hvað hann viti um aðgerðina, hafi hún átt sér stað.


Tengdar fréttir

Donald Trump sakar Obama um að hafa látið hlera sig

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sakað forvera sinn í embætti, Barack Obama, um að hafa látið hlerað sig. Hann segir Obama hafa hlerað Trump turninn í New York fyrir kosningarnar á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×