Erlent

Sessions mun stíga til hliðar „þegar það er við hæfi“

Samúel Karl Ólason skrifar
Jeff Sessions, nýr dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segist aldrei hafa rætt við sendiherra Rússlands um kosningabaráttuna í Bandaríkjunum á fundum þeirra í fyrra. Demókratar vilja að hann segi af sér og segja hann hafa logið undir eiðstaf. Við yfirheyrslur þingmanna þann 10. janúar sagðist Sessions ekki hafa verið í samskiptum við rússneska embættismenn.

Rússar eru sakaðir um að hafa haft áhrif á kosningarnar og þá meðal annars með tölvuárásum og áróðri. Yfirvöld í Bandaríkjunum rannsaka nú hvort að ráðgjafar Trump hafi starfað með Rússum. Sem yfirmaður Alríkislögreglu Bandaríkjanna er Sessions í raun yfir þeirri rannsókn.

Þjóðaröryggisráðgjafi Trump hefur þegar sagt af sér vegna funda sinna með rússneskum erindrekum áður en Trump tók við embætti.

„Ég hef aldrei fundað með nokkrum Rússa til að ræða eitthvað framboð og þessar fregnir eru ótrúlegar fyrir mér og rangar,“ sagði Sessions við blaðamann NBC.

Spurður út í ákall þingmanna demókrata um að hann stígi til hliðar og komi á engan hátt að rannsókn á tengslum aðstoðarmanna Trump og rússneskra stjórnvalda sagðist Sessions að hann myndi gera það „þegar það er við hæfi“.

Háttsettir þingmenn Repúblikanaflokksins hafa einnig sagt að Sessions ætti ekki að koma að rannsókninni á nokkurn hátt. Þar á meðal leiðtogi flokksins í þinginu, Kevin McCarthy.

Eini nefndarmaðurinn sem fundaði með sendiherranum

Talskona Sessions sagði hann hafa fundað tvisvar sinnum með Sergey Kislyak, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, í fyrra á meðan að á baráttu um forsetakosningar í Bandaríkjunum stóð. Hún segir þó að þeir fundir hafi átt sér stað vegna setu Sessions í hermálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings.

Hún segir Sessions hafa fundað með 25 sendiherrum í fyrra vegna nefndarsetunnar.

Washington Post hafði samband við alla 26 meðlimi hermálanefndarinnar í fyrra og spurði hvort þeir hefðu einnig fundað með rússneska sendiherranum. Af þeim tuttugu sem svöruðu hafði enginn þeirra fundað með Kislyak í fyrra. Sessions gerði það, eins og áður hefur komið fram, tvisvar sinnum.

Möguleg tengsl Trump við ríkisstjórn Rússlands hefur valdið ríkisstjórn hans miklum vandræðum frá því hann tók við embætti í janúar. Hér að neðan má sjá samantekt Vox um tengslin.


Tengdar fréttir

Trump efast um tilvist heimildarmanna

Bandaríkjaforseti segir fjölmiðla skálda fréttir sem komi sér illa fyrir hann. Þá gefur hann sér einkunnina C fyrir það hversu vel skilaboð hans komast til skila. Hins vegar fær hann A fyrir vinnusemi og A+ fyrir árangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×