Erlent

Rússar og Kínverjar komu í veg fyrir aðgerðir gegn Sýrlandi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Vladimir Safronkov, fulltrúi Rússlands í ráðinu, beitti neitunarvaldi fyrir hönd Rússa.
Vladimir Safronkov, fulltrúi Rússlands í ráðinu, beitti neitunarvaldi fyrir hönd Rússa. vísir/getty
Rússland og Kína beittu neitunarvaldi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að koma í veg fyrir samþykkt ályktunar um refsiaðgerðir gegn Sýrlandi. Aðgerðirnar höfðu verið lagðar til vegna notkunar sýrlenska hersins á efnavopnum í borgarastríði landsins.

Þetta er í sjöunda sinn sem Rússar beita neitunarvaldi á vettvangi Öryggisráðsins til að koma í veg fyrir aðgerðir gagnvart Sýrlandi. Kína hefur beitt neitunarvaldi sex sinnum í sambærilegum atkvæðagreiðslum.

Sýrlenska stjórnin samþykkti að eyða efnavopnum sínum árið 2013 í kjölfar samkomulags þess efnis við Bandaríkin og Rússland. Rannsókn á vegum Sameinuðu þjóðanna leiddi hins vegar í ljós að herinn hefði beitt klórgasi þrisvar á árunum 2014 og 2015. Því hafa stjórnvöld vísað alfarið á bug.

Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu einnig í ljós að vígamenn Íslamska ríkisins hafa beitt sinnepsgasi í hernaði sínum.

Tillagan var lögð fram af Bretum og Frökkum. Samkvæmt henni var óheimilt að selja þyrlur til Sýrlands. Þá voru lagðar til refsiaðgerðir sem beindust að ellefu sýrslenskum hershöfðingjum og tíu hersveitum sem tóku þátt í aðgerðunum.

Níu meðlimir ráðsins greiddu tillögunni atkvæði sitt. Kína, Rússland og Bólivía greiddu atkvæði gegn henni. Egyptaland, Kasakstan og Eþíópía sátu hjá við afgreiðslu málsins. Til að tillaga teljist samþykkt á vettvangi ráðsins þarf samþykki níu þjóða og enginn fastameðlima þess má beita neitunarvaldi.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hafði gefið það út að refsiaðgerðir gegn Sýrlendingum væru „algerlega óviðeigandi“ og þær „myndu aðeins spilla trausti“ í yfirstandandi friðarviðræðum. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×