Þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og níu aðilar í ferðaþjónustu sem bjóða upp á köfun í Silfru, hittust á fundi í Umhverfisráðuneytinu klukkan 11 í morgun þar sem hertari fyrirmæli vegna köfunar í gjánni voru rædd, en sömu aðilar funduðu í gær eftir að Silfru var lokað eftir banaslys þar á föstudag.
Á fundinum í gær lagði þjóðgarðsvörður fyrir hertari reglur í sex liðum sem eru íþyngjandi fyrir fyrirtækin sem á svæðinu starfa.
Meðal þess sem farið er fram á í nýju reglunum er að ferðamönnum sem kafa í gjánni verði fækkað á hvern leiðsögumann, eftirlit með andlegum og líkamlegum burðum ferðamanna sem ætla að kafa verði hert, aðgangsstýring og betri aðgreining verði á milli köfunar og yfirborðsköfunar. Þá er einnig gert krafa um að kafarar hafi reynslu af notkun þurrbúninga.
Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum sagði að öll fyrirtækin hafi tekið vel í hertari reglur á svæðinu.

„Ég geri ráð fyrir því, það er ekki endanlega ljóst en fundinum miðar vel. Það er eitt minnihátar atriði sem er verið að ræða en að öðru leyti sýnist mér að þetta náist,“ segir Ólafur Örn.
Eru ferðaþjónustufyrirtækin tilbúin til þess að beygja sig undir þær reglur sem þið hafið sett?
„Ég vil ekki endilega nota orðið að beygja sig. Þau hafa að undanförnum mánuðum verið að styrkja öryggiskröfur sínar og þeir líta á þetta sem viðfangsefni sitt þannig að mér sýnist að það sé einhugur og meining allra þó að það þurfi að ræða einhversskonar smávægileg útfærsluatriði,“segir Ólafur Örn.
Hvernig verður fylgst með að fyrirtækin fari eftir þessum reglum?
„Við munum koma þarna upp eftirlitskerfi þar sem verður litið eftir þessu, kannski ekki á hverjum degi en með tilviljunakenndum hætti.“