Fótbolti

Strákarnir glutruðu niður tveggja marka forskoti í Georgíu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Alfons, hér í leik gegn KR síðasta sumar, skoraði eitt marka íslenska liðsins.
Alfons, hér í leik gegn KR síðasta sumar, skoraði eitt marka íslenska liðsins. vísir/stefán
Íslenska landsliðið skipað leikmönnum undir 21 árs aldri glutraði niður tveggja marka forskoti og þurfti að sætta sig við 4-4 jafntefli gegn Georgíu ytra í dag en þetta var seinni æfingarleikur liðanna í þessari viku.

Heimamenn unnu 3-1 sigur á Mikheil Meskhi leikvanginum í höfuðborg Georgíu, Tbilsi, fyrr í vikunni en strákarnir komu ákafir til leiks og komust snemma yfir.

Sjá einnig:Strákarnir töpuðu í Georgíu

Var þar að verki Arnór Gauti Ragnarsson á fimmtándu mínútu en heimamenn voru ekki lengi að svara og jöfnuðu tveimur mínútum síðar.

Arnór Gauti bætti við öðru marki Íslands nokkrum mínútum síðar og kom Íslandi aftur yfir en ekki leið á löngu þar til Georgíumenn jöfnuðu á ný og var staðan jöfn í hálfleik.

Alfons Sampsted kom Íslandi yfir á nýjan leik á 51. mínútu og korteri síðar var Axel Andrésson búinn að bæta við marki og var staðan afar góð fyrir íslenska liðið.

Georgíumenn neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn á 89. mínútu og settu um leið meiri pressu á íslenska liðið sem leiddi til þess að heimamenn jöfnuðu á 95. mínútu.

Svekkjandi jafntefli staðreynd en liðið leikur einn æfingarleik til viðbótar gegn Sádi-Arabíu á þriðjudaginn sem verður loka æfingarleikur liðsins áður en undankeppni fyrir EM 2019 hefst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×