Erlent

Gorsuch segir Trump ekki hafinn yfir lög

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Neil Gorsuch.
Neil Gorsuch. Vísir/Getty
Neil M. Gorsuch, hæstaréttardómaraefni Donalds Trump, heldur því staðfastlega fram að enginn, ekki einu sinni forseti Bandaríkjanna, sé hafinn yfir lög. Þetta kom fram á öðrum degi áheyrnar hans frammi fyrir þinginu. BBC greinir frá.

Aðspurður hvort Trump gæti verið sóttur til saka ef hann kæmi aftur á ólöglegum yfirheyrsluaðferðum, þ.á.m. svokallaðri „waterboarding“-aðferð, ítrekaði Gorsuch þessa skoðun sína.

Þá var hann einnig spurður út í úrskurð í máli Roe v. Wade frá árinu 1973 en í kosningabaráttu sinni lagði Trump áherslu á að skipa dómara sem myndi snúa úrskurðinum við. Gorsuch svaraði einfaldlega „nei“ og að hann hefði „gengið út“ ef Trump hefði farið þess á leit við hann.

Hann fullyrti enn fremur að hann hefði ekki verið beðinn um að lofa neinu varðandi dómsúrskurði. Gorsuch gaf annars lítið upp og forðaðist að fullyrða nokkuð sem gæti reynst umdeilt.

Þá var hann einnig spurður út í réttindi fólks á vinnumarkaði, umdeilt ferðabann forsetans og hversu bókstaflega ætti að styðjast við stjórnarskrána í túlkun á lögum. Svör hans voru nokkuð loðin.

Óvíst er hvort Demókratar reyni að standa í vegi fyrir tilnefningu Gorsuch. Ef þeir láta á það reyna gæti það reynst þeim erfitt en Repúblikanar eru með meirihluta í öldungadeild bandaríska þingsins. Búist er við að kosið verði um tilnefninguna fyrir 7. apríl næstkomandi.

Þriðji dagur áheyrnar Gorsuch frammi fyrir þinginu fer nú fram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×