Erlent

Segir ásakanir um samráð við Rússa runnar undan rifjum demókrata

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir ásakanir um meint samráð starfmanna sinna og yfirvalda í Rússlandi, vera runnar undan rifjum demókrata. Þeir hafa skapað þessar ásakanir til að dreifa athyglinni frá „hræðilegri kosningabaráttu“ þeirra og tapi þeirra í forsetakosningunum. Hann segir fréttir af málinu vera „falskar“.

Hann segir að þingið, Alríkislögreglan og „allir aðrir“ ættu að einbeita sér að því hver sé að leka upplýsingum til stjórnvalda. Sá verði að finnast strax.

Yfirmenn FBI og NSA munu mæta fyrir þingnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í njósnamálum í dag. Þar munu þeir ræða um rannsóknir þeirra varðandi ásakanirnar um að Trump-liðar hafi verið í samráði með Rússum.

Rússar beittu tölvuárásum og áróðri með því markmiði að hafa áhrif á forsetakosningarnar í nóvember.

Þingmenn Demókrataflokksins hafa kallað eftir því að óháður aðili verði fenginn til að rannsaka áðurnefndar ásakanir. Trump rak þjóðaröryggisráðgjafa sinn, Michael Flynn, í síðasta mánuði, eftir að hann afvegaleiddi embættismenn um samskipti sín við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.

Þá hefur komið í ljós að árið 2015 fékk hann háar fjárgreiðslur frá fyrirtækjum með tengsl við yfirvöld í Rússlandi.

Þar að auki lýsti dómsmálaráðherra Trump, Jeff Sessions, því yfir að hann myndi ekki hafa nein afskipti af rannsókninni. Hann hafði einnig afvegaleitt embættismenn um samskipti sín við Sergey Kislyak, sendiherra Rússlands.

James Comey, yfirmaður FBI, verður líklega spurður út í ásakanir Donald Trump um að Barack Obama, forveri hans, hafi látið hlera síma Trump-turns í New York í kosningabaráttunni. Trump hefur ítrekað haldið þessu fram án þess að færa fyrir því sannanir.


Tengdar fréttir

Segja aðgerðir Obama beinast gegn Trump en ekki Putin

Trump hefur ítrekað hvorki viljað samþykkja að Rússar hafi gert tölvuárásir á tölvukerfi Demókrataflokksins og aðila sem tengjast framboði Hillary Clinton og að þeir hafi beitt sér til þess að hjálpa honum að vinna kosningarnar.

Trump hrósar „mjög snjöllum“ Putin

Ljóst er að Trump á ekki samleið með hópi þingmanna Repúblikana sem segja ljóst að refsa þurfi Rússum frekar og koma í veg fyrir frekari afskipti þeirra og tölvuárásir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×