Að sjá í gegnum glerið Bergur Ebbi skrifar 31. mars 2017 07:00 Þessi frásögn hefst á röð hversdagslegra atburða. Fyrir jól brotnaði skjárinn á gömlum iPad sem til var á heimilinu. Ég man ekki hvernig hann brotnaði. Hann bara gaf sig einhvern veginn. Ég fór með hann í viðgerð þó að það svaraði varla kostnaði og fékk splunkunýtt gler á hann. Þegar heim var komið tók ég eftir því að nýja glerið var alsett litlum fíngerðum sprungum, iPadinn væri að hafna nýja glerinu eins og manneskja sem hafnar líffæragjöf. Ég fór aftur með hann á verkstæðið og enn fékk ég nýtt gler. Innan við viku síðar var nýjasta glerið einnig alsett litlum sprungum. Mér leist ekkert á iPad alsettan hvössum glersprungum því það eru aðallega börnin á heimilinu sem nota tækið og því var tekin ákvörðun um að kaupa nýjan iPad um jólin. Um daginn heyrði ég svo öskur innan úr stofu. Fimm ára sonur minn var að spila tölvuleik í nýja iPadinum og varð ósáttur við eitthvað sem fór fram í leiknum þannig að hann beit í iPadinn og það komu sprungur í glerið. Nú fór ég í þriðju ferðina á verkstæðið og hélt ég hefði mikla sögu að segja, sonur minn hefði nagað í sundur skjáinn. Afgreiðslufólkið yppti öxlum. Þetta er víst mjög algengt á okkar tímum. Fimm ára krakkar að bíta í iPada eins og hrökkbrauð. Ekkert óvenjulegt við það.Fyrsta heims vandamál Nýi, nagaði iPadinn, var glerjaður upp á nýtt en skömmu síðar sá ég að það var aftur komin sprunga á skjáinn. Ég fann hvernig ég soðnaði í framan eins og Andrés Önd og helst langaði mig til að fara aftur á verkstæðið og #&#%&%$/, en það sem bjargaði mér var að ég þurfti að mæta upp á flugvöll og þó ég væri reiður var ég ekki nógu reiður til að skrópa í flug. En ástæðan fyrir því að ég segi ykkur frá fluginu er reyndar sú að þegar ég settist í sætið mitt tók ég eftir því að skjárinn fyrir framan mig var brotinn. Það var lítil sprunga sem lá þvert yfir hann allan, fíngerð eins og mannshár. Þessi sprunga truflaði mig líka einmitt á sama hátt og hár getur truflað mann. Eins og fíngert hár sem er fast í matnum manns, og veldur kannski ekki miklum skaða, en á ekki að vera þar. En þessi atburðarás er svo sannarlega ekki búin. Þegar ég kom heim eftir ferðalagið (ekki lengur jafn reiður og Andrés Önd) og ætlaði að hringja í verkstæðið, lenti ég svo í mesta fyrsta heims vandamáli sem til er. Ég missti símann ofan á fartölvuna mína með þeim afleiðingum að skjárinn á henni brotnaði (þetta er hægt!). Og ég veit vel að margir munu ekki trúa þessu, en ég get framvísað myndum sem sýna einn brotinn iPad skjá og einn brotinn fartölvuskjá (síðari iPadinn er hins vegar í viðgerð þegar þetta er ritað, þannig að ég á ekki til mynd af honum). Og auðvitað átti þessi pistill að vera um eitthvað allt annað en brotna skjái, en þar sem fátt annað hefur komist að í huga mínum undanfarnar vikur, þá hlýtur að liggja einhver merking að baki þessu öllu. Augljósasta leiðin er að benda á að tæki nú til dags séu illa smíðuð, ekki gerð til að endast, og að tilvera okkar sé alltof bundin við pínulitla skjái sem dæla inn í okkur afþreyingu sem veitir enga lífsfyllingu. Það má vel vera. Ég er til dæmis alveg sammála því að það er asnalegt að horfa á fyrirsjáanlegt andlitið á Tom Cruise leika Mission Impossible rulluna í fimmta skiptið á sjö tommu sjónvarpsskjá sem er hengdur upp á sætisbak fyrir framan mann þegar maður hefur útsýni yfir Grænlandsjökul úr 35 þúsund feta hæð í glugga við hliðina á manni. Ég get alveg tekið undir þetta, en ég held samt að þessir brotnu skjáir allt í kringum mig séu tákn um enn meiri og stærri sannleik.Stóra þverstæðan Fyrir hvað stendur skjárinn í stóru narratífi nútímans? Skjárinn er snertipunktur við sítenginguna. Það er hægt að opna Twitter, Facebook og Snapchat fimm hundruð sinnum á dag en það er alltaf gler á milli. Glerið er fyrir. Það er óþolandi að vera sífellt að strjúka og snerta það en komast ekki í gegn. Fingurgómarnir vilja meira. Þeir vilja brjóta skjáinn og hverfa inn í móðuna. Þetta hefur aldrei snúist um skjái. Skjáir eru óþolandi. Þetta snýst um það sem er handan skjásins. Samvitundina, sem hefur meira aðdráttarafl en nokkuð annað. Það sem við sækjumst eftir er þrátt fyrir allt ekki einstaklingsbundin reynsla. Þó að internetið upphefji einstaklinginn með alla sína vettvanga til að koma prívat skoðunum á framfæri, selfí-menningu og almennan narsissisma þá er grunn-aðdráttaraflið það sama og aðdráttarafl jökulfljóts. Við viljum líða í sömu átt og hinir. Við viljum upplifa samlíðan og helst má út persónubundnar vonir og þrár, því það eru einmitt þannig hugleiðingar sem valda kvíða. En til þess að klára dæmið þurfum við að komast í gegnum glerið. Ég veit að þetta er þversagnarkennt. Að snjalltækjamenning og sítenging undirbyggi okkur sem einstaklinga á sama tíma og slík menning máir einstaklinginn og friðhelgi hans út og breytir öllum í manngerðir sem búið er að kortleggja frá a-ö. Ég veit að það er þversögn sem gengur ekki upp. En þversagnir innihalda oft mesta sannleikann. Mér finnst til dæmis mín hversdagslega reynsla undanfarna mánuði vera býsna þversagnarkennd. Mér finnst ég vita hvers vegna allir þessir skjáir eru að brotna í kringum mig. Það er vegna þess að ég er farinn að gefa þeim gaum. Ég er farinn að hugsa um skjáina sem eitthvað annað en það sem liggur handan þeirra. Að því leyti er ég hættur að sjá í gegnum þá. En einmitt með því að hætta að sjá í gegnum þá, þá er ég farinn að sjá í gegnum þá. Eða kannski skilur þessi saga enga heimspeki eftir sig heldur aðeins mynd af fimm ára strák að bíta í iPad, hvort heldur sem er, verði ykkur að góðu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergur Ebbi Birtist í Fréttablaðinu Mest lesið Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Nýtanleg verðmætasköpun um allt land Jóhann Frímann Arinbjarnarson Skoðun Gerum betur Hilmar Björnsson Skoðun Dýrkeyptur aðgangur Stella Guðmundsdóttir Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Íslenskufræðingurinn Sigmundur Davíð Hákon Darri Egilsson Skoðun Geðrænn vandi barna og ungmenna Eldur S. Kristinsson Skoðun
Þessi frásögn hefst á röð hversdagslegra atburða. Fyrir jól brotnaði skjárinn á gömlum iPad sem til var á heimilinu. Ég man ekki hvernig hann brotnaði. Hann bara gaf sig einhvern veginn. Ég fór með hann í viðgerð þó að það svaraði varla kostnaði og fékk splunkunýtt gler á hann. Þegar heim var komið tók ég eftir því að nýja glerið var alsett litlum fíngerðum sprungum, iPadinn væri að hafna nýja glerinu eins og manneskja sem hafnar líffæragjöf. Ég fór aftur með hann á verkstæðið og enn fékk ég nýtt gler. Innan við viku síðar var nýjasta glerið einnig alsett litlum sprungum. Mér leist ekkert á iPad alsettan hvössum glersprungum því það eru aðallega börnin á heimilinu sem nota tækið og því var tekin ákvörðun um að kaupa nýjan iPad um jólin. Um daginn heyrði ég svo öskur innan úr stofu. Fimm ára sonur minn var að spila tölvuleik í nýja iPadinum og varð ósáttur við eitthvað sem fór fram í leiknum þannig að hann beit í iPadinn og það komu sprungur í glerið. Nú fór ég í þriðju ferðina á verkstæðið og hélt ég hefði mikla sögu að segja, sonur minn hefði nagað í sundur skjáinn. Afgreiðslufólkið yppti öxlum. Þetta er víst mjög algengt á okkar tímum. Fimm ára krakkar að bíta í iPada eins og hrökkbrauð. Ekkert óvenjulegt við það.Fyrsta heims vandamál Nýi, nagaði iPadinn, var glerjaður upp á nýtt en skömmu síðar sá ég að það var aftur komin sprunga á skjáinn. Ég fann hvernig ég soðnaði í framan eins og Andrés Önd og helst langaði mig til að fara aftur á verkstæðið og #&#%&%$/, en það sem bjargaði mér var að ég þurfti að mæta upp á flugvöll og þó ég væri reiður var ég ekki nógu reiður til að skrópa í flug. En ástæðan fyrir því að ég segi ykkur frá fluginu er reyndar sú að þegar ég settist í sætið mitt tók ég eftir því að skjárinn fyrir framan mig var brotinn. Það var lítil sprunga sem lá þvert yfir hann allan, fíngerð eins og mannshár. Þessi sprunga truflaði mig líka einmitt á sama hátt og hár getur truflað mann. Eins og fíngert hár sem er fast í matnum manns, og veldur kannski ekki miklum skaða, en á ekki að vera þar. En þessi atburðarás er svo sannarlega ekki búin. Þegar ég kom heim eftir ferðalagið (ekki lengur jafn reiður og Andrés Önd) og ætlaði að hringja í verkstæðið, lenti ég svo í mesta fyrsta heims vandamáli sem til er. Ég missti símann ofan á fartölvuna mína með þeim afleiðingum að skjárinn á henni brotnaði (þetta er hægt!). Og ég veit vel að margir munu ekki trúa þessu, en ég get framvísað myndum sem sýna einn brotinn iPad skjá og einn brotinn fartölvuskjá (síðari iPadinn er hins vegar í viðgerð þegar þetta er ritað, þannig að ég á ekki til mynd af honum). Og auðvitað átti þessi pistill að vera um eitthvað allt annað en brotna skjái, en þar sem fátt annað hefur komist að í huga mínum undanfarnar vikur, þá hlýtur að liggja einhver merking að baki þessu öllu. Augljósasta leiðin er að benda á að tæki nú til dags séu illa smíðuð, ekki gerð til að endast, og að tilvera okkar sé alltof bundin við pínulitla skjái sem dæla inn í okkur afþreyingu sem veitir enga lífsfyllingu. Það má vel vera. Ég er til dæmis alveg sammála því að það er asnalegt að horfa á fyrirsjáanlegt andlitið á Tom Cruise leika Mission Impossible rulluna í fimmta skiptið á sjö tommu sjónvarpsskjá sem er hengdur upp á sætisbak fyrir framan mann þegar maður hefur útsýni yfir Grænlandsjökul úr 35 þúsund feta hæð í glugga við hliðina á manni. Ég get alveg tekið undir þetta, en ég held samt að þessir brotnu skjáir allt í kringum mig séu tákn um enn meiri og stærri sannleik.Stóra þverstæðan Fyrir hvað stendur skjárinn í stóru narratífi nútímans? Skjárinn er snertipunktur við sítenginguna. Það er hægt að opna Twitter, Facebook og Snapchat fimm hundruð sinnum á dag en það er alltaf gler á milli. Glerið er fyrir. Það er óþolandi að vera sífellt að strjúka og snerta það en komast ekki í gegn. Fingurgómarnir vilja meira. Þeir vilja brjóta skjáinn og hverfa inn í móðuna. Þetta hefur aldrei snúist um skjái. Skjáir eru óþolandi. Þetta snýst um það sem er handan skjásins. Samvitundina, sem hefur meira aðdráttarafl en nokkuð annað. Það sem við sækjumst eftir er þrátt fyrir allt ekki einstaklingsbundin reynsla. Þó að internetið upphefji einstaklinginn með alla sína vettvanga til að koma prívat skoðunum á framfæri, selfí-menningu og almennan narsissisma þá er grunn-aðdráttaraflið það sama og aðdráttarafl jökulfljóts. Við viljum líða í sömu átt og hinir. Við viljum upplifa samlíðan og helst má út persónubundnar vonir og þrár, því það eru einmitt þannig hugleiðingar sem valda kvíða. En til þess að klára dæmið þurfum við að komast í gegnum glerið. Ég veit að þetta er þversagnarkennt. Að snjalltækjamenning og sítenging undirbyggi okkur sem einstaklinga á sama tíma og slík menning máir einstaklinginn og friðhelgi hans út og breytir öllum í manngerðir sem búið er að kortleggja frá a-ö. Ég veit að það er þversögn sem gengur ekki upp. En þversagnir innihalda oft mesta sannleikann. Mér finnst til dæmis mín hversdagslega reynsla undanfarna mánuði vera býsna þversagnarkennd. Mér finnst ég vita hvers vegna allir þessir skjáir eru að brotna í kringum mig. Það er vegna þess að ég er farinn að gefa þeim gaum. Ég er farinn að hugsa um skjáina sem eitthvað annað en það sem liggur handan þeirra. Að því leyti er ég hættur að sjá í gegnum þá. En einmitt með því að hætta að sjá í gegnum þá, þá er ég farinn að sjá í gegnum þá. Eða kannski skilur þessi saga enga heimspeki eftir sig heldur aðeins mynd af fimm ára strák að bíta í iPad, hvort heldur sem er, verði ykkur að góðu.