Innlent

Óttuðust um líf sitt

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Þrjár íslenskar konur sem urðu vitni að árásinni í Stokkhólmi segja mikla skelfingu og ringlulreið hafa gripið um sig eftir hana. Þær segjast sjálfar hafa óttast um líf sitt.

Helga Margrét Marzellíusdóttir var í miðbæ Stokkhólms ásamt tíu ára dóttur sinni þegar vörubílnum var ekið inn í hóp fólks rétt fyrir klukkan þrjú að sænskum tíma. 

„Það tók sig upp mikil skelfing. Fólk byrjaði að hlaupa frá miðbænum og í allar áttir. Ég þekki ekki vel til Stokkhólms og var bara búin að vera þar í nokkrar klukkustundir. Ég hleyp bara af stað með barnið, gríp bara í hana og hleyp en vissi í rauninni ekki hvert ég var að fara,“ segir Helga.

Hún segir óraunverulegt að upplifa árás af þessu tagi.

„Það var engin leið til að bregðast rétt við þarna. Þetta er eitthvað  sem manni finnst nógu skelfilegt að fylgjast með í fréttum, það kemur nógu mikið við mann þannig, en hvað þá að hafa verið svona nálægt þessu. Það er bara skelfilegt.“

Héldu að þeirra stund væri komin

Helena Reynisdóttir var ásamt vinkonu sinni Birnu Hrönn Gunnlaugsdóttur stödd í verslun á Drottningargötu þegar árásin átti sér stað.

„Við erum bara að skoða föt og erum að fara að labba út þegar vindurinn kemur á móti okkur, og öskur og læti. Við sjáum bara bílinn keyra framhjá okkur, fyrir framan nefið á okkur, bláan risastóran trukk,“ útskýra þær.

„Það hlaupa allir inn í búðina sem við erum í. Allir eru bara stjarfir og vita ekkert hvernig þeir eiga að höndla þetta. Það voru þarna konur að setja börnin sín inn í skápa, þetta var bara sturlun. En í brjálæðinu þá hlupum við tvær út til að reyna að komast frá bænum. Við bara hlupum og hlupum. Ég hef bara aldrei hlaupið svona á ævinni,“ segir Helena.  

Þær segjast hafa orðið mjög óttaslegnar í þessum aðstæðum. 

„Ég hélt bara að mín stund væri komin. Ég hef aldrei óttast jafn mikið um líf mitt og þarna,“ segir Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×