Íslenski boltinn

KA gekk frá Selfyssingum í seinni hálfleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Elfar Árni skoraði annað mark KA.
Elfar Árni skoraði annað mark KA. vísir/vilhelm
KA, sem verður nýliði í Pepsi-deildinni í sumar, komst auðveldlega í undanúrslit Lengjubikars karla í fótbolta í kvöld þegar liðið lagði Inkasso-deildarlið Selfoss, 4-1, í Boganum fyrir norðan.

KA-liðið var betri aðilinn allan tímann en gekk illa að koma boltanum í netið í fyrri hálfleik. Gestirnir refsuðu þeim fyrir það og skoruðu mark úr vítaspyrnu á 44. mínútu.

Callum Williams, varnarmaður KA, fékk boltann í höndina innan teigs og Alfi Conteh Lacalle skoraði úr vítaspyrnunni framhjá Srdjan Rajkovic sem fór þó í rétt horn, 1-0.

Það tók KA aðeins rúma mínútu að skora í seinni hálfleik en það gerði Almarr Ormarsson þegar hann fylgdi á eftir stangarskoti Hallgríms Mar Steingrímssonar, 1-1.

Framherjinn stóri, Elfar Árni Aðalsteinsson, kom KA í 2-0 þegar hann stangaði boltann í netið eftir fallega fyrirgjöf Ólafs Arons Péturssonar frá vinstri og Hallgrímur jók forskotið í 3-1 með fallegu skot fyrir utan teig á 59. mínútu.

KA-menn í raun búnir að ganga frá leiknum á fimmtán mínútna kafla. Þeir hefðu getað skorað fleiri mörk en Guðjón Orri Sigurjónsson hafði nóg að gera í marki Selfoss og varði nokkrum sinnum mjög vel. Daníel Hafsteinsson skoraði fjórða mark KA á 89. mínútu og þar við sat, 4-1.

KA mætir annað hvort ÍA eða Grindavík í undanúrslitum en þau eigast við klukkan 19.15. Á sama tíma hefst leikur Breiðabliks og FH en hann er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×