Erlent

Ráðherrar G7-ríkja reyna að fá Rússa til að láta af stuðningi við Assad

Atli Ísleifsson skrifar
Rex Tillerson er utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Rex Tillerson er utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Utanríkisráðherrar G7-ríkjanna, stærstu iðnríkja heims, hittast á Ítalíu í dag þar sem reynt verður að mynda sameiginlega stefnu í málefnum Sýrlands.

Hugmyndin er að fá Rússa til að láta af stuðningi sínum við Bashar al-Assad Sýrlandsforseta. Þá munu margir ráðherranna vilja fá skýr svör frá Bandaríkjamönnum um framtíðarstefnu þeirra í Sýrlandi en misvísandi skilaboð hafa borist þaðan síðustu daga og vikur.

Rex Tillersson, utanríkisráðherra Bandaríkjamanna, gagnrýndi Rússa harðlega í sjónvarpsviðtali í nótt og segir þá að hluta ábyrga fyrir efnavopnaárásinni sem gerð var á bæinn Idlib á dögunum.

Sagði Tillerson Rússa hafa verið búna að samþykkja að sjá til þess að efnavopnabirgðum Assad-stjórnarinnar yrði eytt. Í ljósi þess að það hafi greinilega ekki verið gert beri þeir ábyrgð á árásinni að hluta.

Tillerson situr G7-fundinn í dag og heldur á morgun til Moskvu til frekari viðræðna við starfsbróður sinn þar, Sergei Lavrov.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×