Erlent

Frakkar segjast búa yfir sönnunum um ábyrgð bandamanna Assad

Atli Ísleifsson skrifar
Franski utanríkisráðherrann Jean-Marc Ayrault.
Franski utanríkisráðherrann Jean-Marc Ayrault. Vísir/AFP
Utanríkisráðherra Frakklands segir að sýni sem leyniþjónusta landsins hafi komist yfir sýni fram á að sveitir á bandi Bashar al-Assad Sýrlandsforseta hafi án nokkurs vafa borið ábyrgð á efnavopnaárás í norðurhluta Sýrlands í byrjun mánaðar.

Reuters grenir frá. Tugir manna létu lífið þegar saríngas var notað í árás á bæinn Khan Sheikhoun þann 4. apríl síðastliðinn. Í kjölfar árásarinnar ákvað Donald Trump Bandaríkjaforseti að gera eldflaugaárás á herflugvöll Sýrlandshers, sem var fyrsta beina árás Bandaríkjahers á Sýrland.

Í frétt Reuters kemur fram að franski utanríkisráðherrann Jean-Marc Ayrault segi að frönsk yfirvöld viti fyrir víst að sýnin séu dæmigerð fyrir efni sem þróuð eru á sýrlenskum rannsóknarstofum.

„Þessi aðferð er einkennandi fyrir stjórnina og það gerir okkur kleift að sýna fram á hver beri ábyrgð á árásinni. Við vitum þetta þar sem við geymdum sýni eftir fyrri árásir sem við gátum notað til samanburðar,“ segir Ayrault.


Tengdar fréttir

Trump: Stuðningur Rússa við Assad mjög slæmur fyrir mannkynið

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að Bandaríkin muni ekki auka þáttöku sína í hernaðarátökum í Sýrlandi þrátt fyrir efnavopnaárásir Bashir al-Assad, forseta Sýrlands. Trump gagnrýnir þó stuðning Rússa við Assad harðlega.

Assad segir allar fregnir af efnavopnaárásinni uppskáldaðar

Bashir al-Assad, forseti Sýrlands, segir að allar fregnir af efnavopnaárás sýrlenska stjórnarhersins í Idlib-héraði Sýrlands séu „100 prósent uppskáldaðar“. Hann segir ð Sýrlandsher hafi látið öll efnavopn sín af hendi árið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×