Erlent

Hátt í 400 almennir borgarar verið felldir í árásum Bandaríkjahers

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá flóttamannabúðum í útjaðri hinnar stríðshrjáðu Mósúl í norðurhluta Írak.
Frá flóttamannabúðum í útjaðri hinnar stríðshrjáðu Mósúl í norðurhluta Írak. Vísir/AFP
Í yfirlýsingu frá Pentagon, höfðustöðvum bandaríska varnarmálaráðuneytisins, í dag kom fram að 352 almennir borgarar hefðu týnt lífi í árásum Bandaríkjahers á bækistöðvar ISIS í Írak og Sýrlandi frá árinu 2014. The Guardian greinir frá.

Þessar tölur hersins stangast á við tölur frá stýrihópum sem fylgjast með árásum af þessu tagi. Hópurinn Airwars gerir til dæmis ráð fyrir að rúmlega þrjúþúsund almennir borgarar hafi látist í árásum sem Bandaríkin áttu aðild að.

„Við erum miður okkar yfir þessum óviljandi dauðsföllum,“ sagði í yfirlýsingu frá Pentagon. „Við vottum fjölskyldum fórnarlambanna og annarra, sem orðið hafa fyrir áhrifum af árásunum, samúð okkar.“

„Allar hugsanlegar ráðstafanir voru gerðar,“ sagði einnig í yfirlýsingunni en loftárásirnar hafi samt sem áður bitnað „óviljandi“ á mannslífum.

Þá kom fram að 45 almennir borgarar hafi látist frá því í nóvember á síðasta ári og að 26 hafi látist í þremur aðskildum loftárásum í mars síðastliðnum í grennd við borgina Mósúl í norðurhluta Íraks. Í sama mánuði létust 14 í árás sem kom af stað sprengingu á öðrum stað og þá létust einnig 10 í árás á höfuðstöðvar ISIS.

Enn stendur yfir mat á 42 tilkynningum um dauðsföll almennra borgara í aðgerðum Bandaríkjahers og bandamanna hans gegn ISIS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×