Íslenski boltinn

Fylkir byrjar tímabilið af krafti

Albert Brynjar Ingason skoraði eitt marka Fylkis.
Albert Brynjar Ingason skoraði eitt marka Fylkis. vísir/hanna
Þrír leikir fóru fram í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í dag. Fylkir fékk Þór frá Akureyri í heimsókn í Árbæinn og fór með 3-1 sigur af hólmi. Leiknir Fáskrúðsfirði og Grótta gerður 2-2 jafntefli og Þróttur Reykjavík lá á heimavelli gegn Haukum, 1-2.

Albert Brynjar Ingason kom Fylkismönnum yfir með marki á 5. mínútu. Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari Þórs, fékk að líta rauða spjaldið á 35. mínútu og tveimur mínútum síðar bætti Oddur Ingi Guðmundsson við öðru marki fyrir Fylki.

Í síðari hálfleik skoraði Andrés Már Jóhannesson þriðja mark Fylkis áður en Gauti Gautason klóraði í bakkann fyrir Þórsara undir lokinn.

Leiknir tók á móti Gróttu í Fjarðabyggðahöllinni á Reyðarfirði. Leikurinn var ekki nema fjögurra mínútna gamall þegar Viktor Smári Segatta kom gestunum í Gróttu yfir. Leiknismenn gáfust þó ekki upp og skoruðu tvö mörk áður en flautar var til hálfleiks. Það fyrra skoraði Valdimar Ingi Jónsson og það síðara skoraði Arkadiusz Jan Grzelak. 2-1 í hálfleik.

Það var heldur betur hasar í síðari hálfleik. Ingólfur Sigurðsson skoraði og jafnaði metin fyrir Gróttu með marki úr vítaspyrnu á 49. mínútu. Undir lok leiksins fengu svo tveir menn að líta rauða spjaldið. Fyrst fékk Hilmar Freyr Bjartþóorsson, leikmaður Leiknis F., rautt spjald og í kjölfarið fékk Sigurður Brynjólfsson, aðstoðarþjálfari Gróttu, að líta rauða spjaldið.

Í Laugardalnum tók svo Þróttur á móti Haukum. Haukar byrjuðu betur og komust yfir með marki frá Daníel Snorra Guðlaugssyni á 15. mínútu. Skömmu áður en flautað var til hálfleiks fékk Þróttur hins vegar vítaspyrnu þegar Trausti Sigurbjörnsson, markvörður Hauka og fyrrum markvörður Þróttar, gerðist brotlegur. Vítaspyrnuna tók Emil Atlason og hann skoraði.

Það var svo önnur vítaspyrna sem réð úrslitum í leiknum en hana fengu Haukar á 69. mínútu. Spyrnuna tók Björgvin Stefánsson og skoraði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×