Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar og varaformaður nefndarinnar, sem stýrir umfjöllun hennar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um einkavæðingu Búnaðarbankans, vill ekki upplýsa um efni erindisins annað en að þar megi finna rökstuðning Ólafs fyrir beiðninni.

Ólafur sendi frá sér yfirlýsingu þann 12. apríl þar sem hann óskaði eftir að fá að mæta á fund nefndarinnar. Rannsóknarnefnd Alþingis kynnti í lok mars niðurstöðu sína um þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans árið 2003 en hún var sú að þýski bankinn hefði í raun aldrei verið þar fjárfestir. Í yfirlýsingu sinni sagðist Ólafur vilja varpa ljósi á atburðarásina og svara spurningum.
„Við munum skila skýrslu um skýrsluna um Búnaðarbankann og skila einhvers konar greinargerð um framhaldið að öðru leyti.“
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður nefndarinnar, og Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður sama flokks og 2. varaformaður, sögðu í samtali við Fréttablaðið síðasta fimmtudag það geta reynst óskynsamlegt að hafa fundinn opinn fyrir fjölmiðlum og almenningi.
„Ég er ekki búinn að gera það endanlega upp við mig og það hangir saman við hvernig nefndin tekur á málinu. Það er ekki komin ákvörðun um það,“ svarar Jón Steindór.