Viðskipti innlent

Kári Sturluson gengur til liðs við Albumm

Tinni Sveinsson skrifar
Steinar Fjeldsted og Kári Sturluson hafa tekið höndum saman.
Steinar Fjeldsted og Kári Sturluson hafa tekið höndum saman. Vísir/GVA
Framleiðandinn Kári Sturluson hefur gengið til liðs við teymið á bak við vefinn Albumm. Saman hyggja þau á frekari landvinninga á netinu sem og strætum Reykjavíkurborgar.

Albumm var stofnaður árið 2014 af Steinari Fjeldsted og Sigrúnu Guðjohnsen. Markmið vefsins hefur verið frá byrjun að sinna íslenskri tónlist og grasrótarmenningu. Viðtökur hafa verið frábærar og er vefurinn komin á mikið flug í kjölfar samstarfs við Vísi, sem hófst í fyrravor. Tugþúsundir lesenda heimsækja nú Albumm í hverjum mánuði.

Sjá einnig:Kári Sturluson kaupir Cafe Rosenberg

Á næstu vikum verður blásið til sóknar í þróun Albumm en þá verður ensk útgáfa af vefnum sett á laggirnar. Alþjóðleg eftirspurn eftir íslenskri tónlist og fregnum af íslenskum tónlistarmönnum hefur aukist gríðarlega og verður henni mætt á þennan hátt.

Einnig eru viðburðir og fleira á döfinni hjá Albumm-teyminu. „Allskonar hliðarsjálf vefsins munu að poppa upp hér og þar um borgina á næstu vikum,“ segir í tilkynningu en þar er einnig greint nánar frá fólkinu á bak við vefinn:

Kári Sturluson

Kári Sturluson hefur um árabil starfað við framleiðslu tónlistar, kvikmynda og viðburða á Íslandi sem og erlendis.  Meðal samstarfsfólks Kára í gegnum tíðina má nefna Quarashi, Emilíönu Torrini, Sigur Rós, Hjálmar, Megas og Damien Rice.  Auk þess hefur Kári haldið aragrúa tónleika á Íslandi með erlendu listafólki einsog Foo Fighters, Coldplay, Buena Vista Social Club, Robert Plant, Rammstein og Duran Duran svo fátt eitt sé nefnt.  Kári hefur unnið ýmis verkefni tengd tónlist og viðburðum fyrir ríki og borg ásamt því að hafa stjórnað Iceland Airwaves hátíðinni fyrstu ár hennar.

Sigrún Guðjohnsen

Sigrún er útskrifuð leikkona úr Vancouver Film School. Hún bjó í Kanada í sjö ár þarsem hún gat sér gott orð sem leikkona og framleiðandi kvikmynda og sjónvarpsefnis. Sigrún er ekki ókunnug íslenskri tónlist og netinu enda hélt hún úti vinsællri vefsíðu fyrir Norður Ameríku um íslenska tónlist og menningu.

Steinar Fjeldsted

Steinar hefur verið viðloðandi íslensku tónlistar- og hjólabrettasenuna frá táningsaldri.  Steinar stofnaði hljómsveitina Quarashi haustið 1996 sem átti gríðarlegri velgengi að fagna á Íslandi og síðar um heim allan. Síðustu ár hefur Steinar einbeitt sér að albumm.is og sinnt hjólabrettamenningunni. Margt ungviðið hefur t.d. sótt hjólabrettanámskeið hans í aðstöðu Brettafélags Hafnarfjarðar.


Tengdar fréttir

Kári Sturluson kaupir Café Rosenberg

Kári Sturluson, tónleikahaldari, hefur keypt Café Rosenberg af þeim Þórði Pálmasyni og Auði Kristmannsdóttur en staðurinn er einn þekktasti tónleikastaður í Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×