Erlent

Segja enn stærri og lúmskari tölvuárás í gangi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Byggir árásin á sama grunni og hin svokallaða WannaCry
Byggir árásin á sama grunni og hin svokallaða WannaCry vísir/epa
Önnur stærri og lúmskari tölvuárás en sú sem sýkti tölvur út um allan heim í vikunni er í gangi að mati netöryggisérfræðinga. AFP greinir frá.

Byggir hún á sama grunni og hin svokallaða WannaCry veira sem sýkt hefur um 300 þúsund tölvur víða um. Í stað þess þó að frysta gögn og krefja eigendur þeirra um lausnarfé lúrir veiran í bakgrunni sýktra tölva og notar þær sem námuvél fyrir rafrænan gjaldmiðil.

Gjaldmiðillinn sem um ræðir nefnist Monero og er af sama tagi og Bitcoin og aðrir rafrænir gjaldmiðlar. Hægt er að nota tölvur til þess að búa til nýjar rafrænar myndir eða „grafa þær upp.“

Sérfræðingar hjá netöryggisfyrirtækinu Proofpoint telja að tölvuþrjótarnir sem standa að baki veirunni, sem nefnd hefur verið Adylkuzz, hafa haft þúsundi dollara í formi rafræns gjaldmiðils upp úr krafsinu til þessa.

Telja þeir að árásin hafi mögulega byrjað í apríl en erfitt getur reynst fyrir notendur að verða veirunnar varir vegna þess að hún lúrir í bakgrunni án þess að hafa afgerandi áhrif á tölvuna.


Tengdar fréttir

Norður-kóreskir hakkarar hugsanlega á bak við tölvuárásina

Bandaríska öryggisfyrirtækið Symantec og rússneska öryggisfyrirtækið Kaspersky telja sig hafa fundið vísbendingar sem gefa til kynna að norður-kóreskir hakkarar hafi verið að verki þegar tölvuvírusinn WannaCry fór af stað á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×