Erlent

Umfangsmiklar tölvuárásir eiga sér stað um heim allan

Samúel Karl Ólason skrifar
Árásir virðast hafa verið gerðar í minnst 74 löndum en meðal þeirra eru Rússland, Bandaríkin, Bretland, Spánn, Ítalía og fleiri.
Árásir virðast hafa verið gerðar í minnst 74 löndum en meðal þeirra eru Rússland, Bandaríkin, Bretland, Spánn, Ítalía og fleiri. Vísir/Getty
Umfangsmiklar tölvuárásir hafa átt sér stað gegn stofnunum og fyrirtækjum um allan heim í dag. Árásir virðast hafa verið gerðar í minnst 74 löndum en meðal þeirra eru Rússland, Bandaríkin, Bretland, Spánn, Ítalía og fleiri. Árásirnar fela í sér að tölvur læsast og á skjái þeirra koma upp skilaboð um að hægt sé að opna þær aftur með bitcoin greiðslum sem samsvara um 300 dölum, eða rúmar 30 þúsund krónur.

Samkvæmt frétt BBC segja öryggissérfræðingar að árásirnar tengist og á meðal þeirra stofnana sem hafa orðið fyrir árásum eru sjúkrahús í Bretlandi.

Sjá einnig: Breska heilbrigðisstofnunin varð fyrir árás tölvuhakkara.



Starfsmaður fyrirtækisins Avast, sem sérhæfir sig í tölvuvörnum segir að fyrirtækið hafi greint minnst 57 þúsund sambærilegar árásir í dag. Flestar þeirra í Rússlandi, Úkraínu og í Taívan.

Í bloggfærslu Avast segir að vírusinn, sem kallast WanaCrypt0r 2.0 eða WCry, sé svokallað ransomware og mun þetta vera ný útfærsla af vírusnum sem hafi fyrst sést í febrúar.



Þá segir enn fremur að vírusnum hafi verið dreift með aðferð sem hópur hakkara sem tengist NSA hafi þróað. Þeirri aðferð hafi þó verið stolið af öðrum hópi hakkara og birt á internetinu. Microsoft gaf út svokallaðan plástur til að loka á áðurnefndan öryggisgalla nú í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×