Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu segir að „[þ]ar sem um er að ræða samruna sem geti varðað almenning miklu hefur Samkeppniseftirlitið ákveðið að óska opinberlega eftir sjónarmiðum almennings og fyrirtækja í þágu rannsóknarinnar.“
Hefur eftirlitið birt samrunatilkynningu málsins svo allir hafi kost á því að kynna sér samrunann. Tilkynningin er birt á vefsíðu eftirlitsins og er hún birt án trúnaðarupplýsinga.

Óskar Samkeppniseftirlitið að sjónarmið og gögn frá almenningi, fyrirtækjum og opinberum stofnunum berist eigi síðar en 26. maí en nálgast má eyðublöð á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins.
Kaup Fjarskipta á á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins og tímaritsins Glamour, voru undirrituð í mars síðastliðnum.
Frá og með 28. apríl byrjuðu frestir Samkeppniseftirlitsins til að rannsaka samrunann að líða eftir að fullnægjandi samrunatilkynning barst eftirlitinu.
Frá þeim degi hefur Samkeppniseftirlitið 25 virka daga til að taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum samrunans. Reynist svo vera, hefur eftirlitið 70 virka daga til viðbótar til að taka ákvörðun í málinu.