Fótbolti

Tvennskonar meiðsli halda Guðbjörgu frá keppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir.
Guðbjörg Gunnarsdóttir. Vísir/Getty
Guðbjörg Gunnarsdóttir, aðalmarkvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, hefur ekki verið með liði sínu Djurgården í síðustu tveimur leikjum liðsins í sænsku kvennadeildinni í fótbolta.

Guðbjörg er að glíma við tvennskonar meiðsli. Hún meiddist fyrst á nára í leik á móti Kvarnsveden og svo lenti hún í hryllilegri tæklingu í leik á móti Kristianstad sem kostaði hana meðal annars sjö spor á hendi.

„Ég gerði allt sem ég gat til að vera með a móti LB07 en það gekk ekki.  Nárinn var ekki góður og hrikalega sársaukafullt að lenda á hendinni,“ sagði Guðbjörg í stuttu spjalli við Vísi.

„Ég tók út saumana i gær og er enn ekki góð í náranum. Ég hefði getað komið inn í leiknum í dag án þess að sparka og þess vegna fékk ég að fara með og vera á bekknum,“ segir Guðbjörg sem sá þá lið sitt tapa 4-1 á móti Vittsjö.

„Ég vona að ég sé klár i næsta leik en ætla ekki að taka séns á að þetta verði alvöru tognun. Ég vona ég spili á sunnudaginn en ef ekki á sunnudag þá á miðvikudaginn, sagði Guðbjörg.

Djurgården hefur saknað hennar í síðustu tveimur leikjum en þeir hafa báðir tapast og mótherjarnir hafa skorað í þeim sex mörk eða næstum helming þeirra marka sem Djurgården liðið hefur fengið á sig í fyrstu sjö umferðunum á tímabilinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×