Íslenski boltinn

Fyrsti sigur Leiknis í sumar var á móti Leikni á Leiknisvelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leiknismenn fagna marki Elvars Páls Sigurðssonar.
Leiknismenn fagna marki Elvars Páls Sigurðssonar. Vísir/Stefán
Leiknismenn úr Reykjavík fögnuðu sínum fyrsta sigri í Inkasso-deildinni í fótbolta í dag þegar liðið vann 2-0 sigur á nöfnum sínum frá Fáskrúðsfirði.

Kolbeinn Kárason og Elvar Páll Sigurðsson skoruðu mörk Leiknisliðsins en Kolbeinn klúðraði líka vítaspyrnu í leiknum.

Hvorugt Leiknisliðið hafði unnið leik í deildinni fyrir viðureign þeirra í kvöld en Breiðhyltingar höfðu náð tveimur jafnteflum í fyrstu þremur umferðunum.

Þetta er hinsvegar þriðji tapleikur Austfirðinga í röð eftir jafntefli á móti Gróttu í 1. umferðinni.

Leiknir R. komst upp í sjötta sæti deildarinnar með þessum sigri en þetta var fyrsti leikur fjórðu umferðarinnar og því getur það breyst áður en umferðin klárast.

Kolbeinn Kárason kom Leikni í 1-0 á 30. mínútu eftir undirbúning Elvars Páls Sigurðssonar. Kolbeinn gat bætt við öðru marki á 53. mínútu en lét þá Robert Winogrodzki verja frá sér vítaspyrnu.

Elvar Páll Sigurðsson skoraði seinna mark Leiknisliðsins á 55. mínútu eftir stoðsendingu frá Ísak Atla Kristjánssyni en Elvar Páll hefur þar með skorað þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum liðsins.

Upplýsingar um gang leiksins eru fengnar frá fótbolti.net.

Stefán Karlsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, tók skemmtilegar myndir á leiknum í dag og það má sjá þær hér fyrir neðan.

Vísir/Stefán
Vísir/Stefán
Vísir/Stefán
Vísir/Stefán
Vísir/Stefán
Vísir/Stefán
Vísir/Stefán



Fleiri fréttir

Sjá meira


×