Enski boltinn

Eiginkona Guardiola og dætur voru í Manchester Arena í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City. Vísir/EPA
Fjölskylda Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City, var meðal tónleikagesta í Manchester Arena í gærkvöldi en þá var gerð sjálfsmorðssprengjuárás í lok tónleika bandarísku tónlistarkonunnar Ariana Grande.

Cristina Serra, eiginkona Pep Guardiola, og dætur þeirra, Maria og Valentina, voru meðal þeirra 21 þúsund sem mættu til fylgjast með einni af vinsælustu unglingastjörnu heims á sviði.

Sky Sports segir frá því að fjölskylda Pep Guardiola hafi sloppið ómeidd frá árásinni þar sem að 22 létust og margir tugir til viðbótar slösuðust.

Fyrstu fréttir af ferðum konu og dætra í í gærkvöldi komu fram í spænskum fjölmiðlum en Sky Sports hefur síðan fengið þessar fréttir staðfestar þó að Manchester City vilji ekki tjá sig um málið.

Pep Guardiola var á leiðinni til Abú Dabí til að fara yfir sitt fyrsta tímabil með Manchester City með eigendum félagsins en ekki er vitað hvort þetta muni breyta því skipulagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×