Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur í Wolfsburg tóku við þýska meistaratitlinum eftir 2-2 jafntefli gegn Jena í lokaumferð þýsku deildarinnar í dag en titilinn var þegar í höfn eftir stórtap Bayern Munchen um síðustu helgi.
Það kom því ekki að sök að Wolfsburg skyldi hafa tapað 0-2 gegn Freiburg um síðustu helgi þar sem titillinn var í höfn eftir tveggja ára fjarveru.
Ralf Kellermann, þjálfari Wolfsburg gat leyft sér að dreifa álaginu í lokaleiknum á heimavelli og kom Sara Björk ekki við sögu í jafnteflinu en Wolfsburg lenti 0-2 undir í fyrri hálfleik og náði að bjarga jafntefli með tveimur mörkum í seinni hálfleik.
Var þetta fyrsta tímabil Söru í herbúðum þýska stórveldisins og varð hún meistari strax á fyrsta ári en í samtali við Fréttablaðið fyrr í vikunni sagði Sara tilfinninguna hafa verið æðislega þrátt fyrir tapið um síðustu helgi sem og að hún hafi aldrei verið í jafn góðu formi.
Tímabilinu er þó ekki lokið hjá Söru en um næstu helgi mætir Wolfsburg í bikarúrslitunum SC Sand en þar hefur Wolfsburg titil að verja.
Fótbolti