Harpa Þorsteinsdóttir, leikmaður Stjörnunnar í Pepsi-deild kvenna, sneri aftur á fótboltavöllinn í gærkvöldi þegar hún kom inn á sem varamaður í 3-1 tapi Íslandsmeistaranna á móti Þór/KA í toppslag deildarinnar.
Þetta var fyrsti leikur Hörpu eftir barnsburð en hún ól sitt annað barn í byrjun mars. Hún spilaði síðast í 1-1 jafntefli Stjörnunnar á móti Breiðabliki í byrjun september á síðasta ári.
Endurkomu Hörpu hefur verið beðið með eftirvæntingu enda lykilmaður í íslenska landsliðinu sem hefur leik á EM í Hollandi um miðjan júlí. Harpa var markahæsti leikmaður undankeppninnar með tíu mörk í sex leikjum og leiddi Stjörnuna til Íslandsmeistaratitilsins með 20 mörkum á síðustu leiktíð sem tryggðu henni gullskóinn.
Harpa var eðlilega ekki valin í landsliðshópinn sem mætir Írlandi og Brasilíu í vináttuleikjum í byrjun næsta mánaðar en nú fær Harpa tvo deildarleiki og einn bikarleik til að komast í gang ætli hún sér sæti á EM.
„Ég er bara fín,“ sagði Harpa við Vísi eftir leikinn í gær. „Ég er mjög glöð að vera komin aftur og með að fá mínútur. Mér líður bara vel.“
Harpa sagði í viðtali við Akraborgina fyrr í þessum mánuði að löngunin til að spila fótbolta væri að vakna aftur núna en hún hefur vitaskuld verið upptekin að sjá um nýja barnið.
En ætlar hún á EM? „Ég stefni bara á að spila betur og betur. Við sjáum svo til hvert það leiðir. Auðvitað er maður alltaf með EM sem gulrót,“ sagði Harpa Þorsteinsdóttir.
Gullskór Íslands og Evrópu sneri aftur í gær og lítur á EM sem gulrót
Tómas Þór Þórðarson skrifar
